148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Dómsmálaráðherra segir okkur í stjórnarandstöðunni eitthvað vera að misskilja þrískiptingu ríkisvaldsins. Í sömu ræðu lýsir hæstv. ráðherra því yfir, þvert á dómsorð Hæstaréttar Íslands, að hún hafi fylgt lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara í nýjan dómstól, Landsrétt.

Forseti. Það er ráðherrann sjálfur sem misskilið hefur þrískiptingu ríkisvaldsins þegar hún heldur því fram að hún sé betri dómari í eigin sök en Hæstiréttur. Raunar gengur hæstv. ráðherra skrefinu lengra og lætur hv. þingmenn vita að atkvæði þeirra verði lengi í minnum höfð. Ég vil biðja hæstv. dómsmálaráðherra um að virða þrískiptingu ríkisvaldsins og vera ekki að hóta handhöfum löggjafarvaldsins þegar þeir sinna sinni lögbundnu eftirlitsskyldu með framkvæmdarvaldinu.