148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að okkur þingmönnum öllum, sér í lagi ráðherrum, sé ágætt að viðhafa ákveðna auðmýkt fyrir ábyrgð okkar og skyldum hverju sinni. Mér þykir miður að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra hafa valið annan kúrs hvað það varðar og raunar með ólíkindum að hlusta á hótanir í garð þingheims og þau brigsl sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haft hér uppi varðandi aðkomu þingmanna Viðreisnar að þessu máli. Það er alveg rétt að við greiddum atkvæði með tillögu dómsmálaráðherra á sínum tíma. Við höfðum uppi verulegar efasemdir í umfjöllun okkar um málið, að það hefði ekki verið nægilega vel rannsakað, en kusum á endanum að treysta ráðherra gegn síendurteknum fullyrðingum um að málið verði vandlega undirbúið. Í þessari umfjöllun, í meðhöndlun dómstóla og dómi Hæstaréttar, kemur í ljós að ekki er hægt að vísa til eins einasta (Gripið fram í.) sérfræðings sem studdi tillögu ráðherra annars en hyggjuvits ráðherra sjálfs og hennar sérfræðikunnáttu. Það er verulega umhugsunarvert. Það undirstrikar það að okkur urðu á mistök við stuðning málsins á sínum tíma. Við ætlum ekki að endurtaka þau mistök hér.