148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er greinilegt að sumir hæstv. ráðherrar kjósa að sitja í sætum sínum og hlusta ekki á það sem er sagt. Mér finnst harla undarlegt hjá hæstv. fjármálaráðherra að leggja að jöfnu að einhver sjónarmið komi fram fyrir nefndinni við þau sjónarmið sem koma frá hæstv. dómsmálaráðherra og að maður gæti trúað frá ráðgjöfum hans í ráðuneytinu sem eru helstu sérfræðingar málsins. Er enginn munur á því, hæstv. fjármálaráðherra? (Fjmrh.: … samtali?) Nei, ég er að horfa á þig, ég er ekki í samtali við þig. [Hlátur í þingsal.]

Ég segi: Skilur þú ekki muninn á því að maður leggi traust sitt — sem bregst — á ráðherra sem fer með málaflokkinn? Maður veit að hann hefur sérfræðingalið í ráðuneytinu. Hann kýs að hlusta ekki á það. (Forseti hringir.) Sérðu ekki muninn?

(Forseti (SJS): Forseti minnir þingmenn á að tala ekki til annarra þingmanna eða ráðherra í 2. persónu.)