148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það kom fram í þjóðarpúlsi Gallups, var í fréttum í dag, hvernig traust hefur vaxið eða hrunið í samfélaginu síðastliðið ár og viti menn, traust á Alþingi hefur rokið upp. Ég er ekkert hissa. Ég er bara ekkert hissa á því að traust á Alþingi hafi rokið upp. Alþingi hefur verið að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er nákvæmlega það sem landsmenn vilja. Það er það sem landsmenn vilja og við höfum haft góðan tíma til að gera það og við höfum sinnt því vel. Þetta er hluti af eftirlitshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu og við munum halda áfram að gera nákvæmlega það. Það er lögbundin skylda okkar og við munum halda því áfram.

Ég held að þetta muni auka traust á Alþingi. Þetta mun ekki auka traust á ríkisstjórninni. Þetta mun ekki auka traust á þeim aðilum(Forseti hringir.) sem hafa hrunið í tíð núverandi dómsmálaráðherra, (Forseti hringir.) dómskerfinu, löggæslunni, þetta mun ekki auka traust á þeim. Þetta mun auka traust á Alþingi vegna þess að við erum að sinna okkar (Forseti hringir.) lögbundna hlutverki, að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu fyrir landsmenn.