148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það var mikill heimspekingur sem lifði, að því er virðist, einhvern tímann sem hét Joshua bar-Joseph, þekktur sem Jesús Kristur. Hann lagði mikið upp úr fyrirgefningu og skilningi og umburðarlyndi og svoleiðis. Ég er mikill aðdáandi þessa manns og hans speki, þvert á það sem margir telja. Það er ákveðin forsenda fyrir því, þ.e. að fólk skilji hvað það gerir rangt, að fólk sýni iðrun og sýni viðleitni til þess að bæta fyrir það sem það gerir rangt eða í það minnsta hagi sér öðruvísi í framtíðinni.

Ef einhverrar slíkrar viðleitni gætti frá hæstv. dómsmálaráðherra er ég ekkert viss um að þessi tillaga hefði endilega komið fram. Stóra málið er það að hæstv. dómsmálaráðherra hefur við hvert einasta fótmál sagt: Svo ætla ég að gera þetta, mér er alveg sama hvað ykkur finnst. Hún kærir sig kollótta um afleiðingarnar. Það virðist alveg sama hversu langt málið fer. Einhvern veginn skiptir alltaf mestu máli að þessi tiltekni einstaklingur verði í þessu tiltekna sæti. Það er alltaf á aðaláherslan hér á Íslandi, að því er virðist, vegna þess að á Íslandi gerum við ekki greinarmun á stöðu og einstaklingi. Hér gerum við það. Enda erum við að leggja til að hæstv. dómsmálaráðherra víki sæti til að einhver hæfur komi í hans stað.