148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég held að þessi ríkisstjórn muni ekki falla þó að það verði samþykkt hérna í dag að dómsmálaráðherra þurfi að víkja. Ég held ekki. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn hafi engan áhuga á því, ekki Framsóknarflokkurinn, ekki Vinstri grænir. Þau munu halda saman. Það treystir í rauninni enginn þessum dómsmálaráðherra, ekki í alvöru, til að leyna ekki upplýsingum og svíkja og láta sína hagsmuni ráða og sitja sem fastast, sama hvað það kostar ríkisstjórnina. Þessi dómsmálaráðherra verður látinn víkja. Hagsmunir flokksins verða að fá að ráða þegar dómsmálaráðherra er búinn að skemma allt það langa ferli sem flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur af fagmennsku verið að vinna að.

Ég er alveg viss um að það verða allir lifandis fegnir yfir því að við getum farið að starfa áfram af fagmennsku. Ríkisstjórnin mun halda þannig að ég vona að það séu einhverjir tveir þingmenn sem ákveða að greiða atkvæði með vantrausti. Sjálfstæðisflokkurinn þarf þá bara að fara í sitt bakland og segja: Heyrðu, við gerum þetta bara betur. Við gerum þetta áfram, við þurfum að velja annan. Þessi ríkisstjórn á ekki eftir að falla á þessu. Þetta vantraust er á dómsmálaráðherra.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir væntanlega já.)

Já.