148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Sumir vilja meina að siðferði og rétt breytni skipti litlu í stjórnmálum. Ég er ósammála því. Þessi afstaða mín var ein af ástæðum þess að ég studdi ekki stjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þegar til þess var stofnað. Á þeim tíma taldi ég að nóg væri af dæmum um mál sem sýndu að ekki væri hægt að treysta samstarfsflokknum. Þar nefndi ég sérstaklega framgöngu Sjálfstæðisflokksins í málum sem tengdust uppreist æru, harðnandi afstöðu flokksins í útlendingamálum og loks skipan dómara í Landsrétt.

Mér þótti Landsréttarmálið slæmt í nóvember en síðan hefur það stöðugt versnað. Ráðherra hefur sýnt að hún er ekki traustsins verð. Vinnubrögðin sæma ekki ráðherra og almenningur getur ekki treyst því að vandað sé til verka til að tryggja óháða dómstóla.

Mín afstaða er einföld. Ég styð ekki áframhaldandi setu dómsmálaráðherra í ríkisstjórn. Ég segi já.