148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni það sem mikið er búið að tala um lengi. Það er traust þingsins, traust til þingsins og stjórnmálamanna sem virðist fara niður með hverri skoðanakönnun þótt við séum að vísu í toppmálum miðað við borgaryfirvöld.

Spurningin er alltaf: Hver er ástæðan og hvað er til úrbóta? Forsætisráðherra skipaði nefnd til að reyna að bæta stöðuna og auka traust til þingsins. Ég hef verulegar efasemdir um gagnsemi slíks meðan við sjálf erum mjög ómálefnaleg í garð hvert annars. Við erum með stanslausar upphrópanir, sum okkar, um fúsk hinna, um spillingu hinna og jafnvel glæpsamlegt athæfi hinna. Svona málflutningur mun örugglega ekki auka traust almennings til þingsins. Hér er raunverulega verið að grafa undan trausti.

Það er eins og margir haldi að þessi málflutningur og að skapa þessa upplausn sé til gagns. En það er ekki til gagns. Sumir láta ekki duga að draga úr trausti þingsins með svona málflutningi heldur ráðast jafnvel á stjórnsýsluna með ásökunum um fúsk og lögleysu. Gott dæmi er nýleg umræða um vopnaflutning þar sem menn halda því fullum fetum fram að embættismenn hafi ekki farið að lögum. Auðvitað elta fjölmiðlamenn þetta alltaf, bæta jafnvel í alla vitleysuna og gefa svo hver öðrum verðlaun fyrir.

Ég held að við munum aldrei skapa nokkurt traust eða auka það nema vera með málefnalega gagnrýni, rökstudda gagnrýni, og taka svo til hjá okkur sjálfum.