148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að ræða hér stöðu á fasteignamarkaði. Ástæða þess að ég ræði það mál nú er frétt í Morgunblaðinu í gær þar sem fyrirsögnin var: Eftirspurnin mjög ofmetin. Þá er spurningin: Er það svo? Ari Skúlason, hagfræðingur Landsbankans, hefur m.a. talað um að fara þurfi varlega í mat á þörfinni því að við viljum heldur ekki hvetja til offramboðs á markaðnum eins og var t.d. eftir hrun.

Í greiningum Íbúðalánasjóðs er talað um uppsafnaðan skort upp á 6.000 íbúðir og að þegar horft er til næstu ára sé alla vega þörf á 9.000 íbúðum. Við ræddum þessa skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs hér í byrjun febrúar í sérstakri umræðu. Ég lét þau orð falla í þeirri umræðu að ég hefði efasemdir um þessa miklu þörf eða þann skort sem þar er tilgreindur.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að það er og hefur verið viðvarandi skortur á íbúðarhúsnæði á síðustu árum. En það er þó svo að mikið af íbúðum hefur verið að koma inn á markaðinn hér á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega og á landinu öllu voru 1.800 nýjar íbúðir á síðasta ári. Flestar þeirra voru reyndar í Mosfellsbæ eða 400 íbúðir. Á sama tíma og ég tel mikilvægt að við leggjumst öll á eitt við að reyna að ná jafnvægi á byggingarmarkaði, á markaði sem í gegnum tíðina hefur verið mjög sveiflukenndur með miklum og vondum áhrifum fyrir okkur öll, hvet ég sveitarfélög til að tryggja nægt framboð lóða á næstu árum. Á sama tíma er mikilvægt að þær tölur sem eru gefnar út af opinberum aðilum, um þörf næstu ára, séu raunhæfar og trúverðugar. Við verðum nefnilega að átta okkur á því að fjölgun íbúða kallar á töluverðar innviðafjárfestingar af hálfu hins opinbera, bæði fyrir sveitarfélög og ríki.

Þá er nauðsynlegt að koma inn á þá stöðu sem uppi er í samgöngumálum hér á höfuðborgarsvæðinu. En það er algerlega nauðsynlegt að tryggja heildstæðar og raunhæfar lausnir til að leysa þann vanda sem uppi er í dag og hvað þá þegar íbúum svæðisins fjölgar um 40.000 manns á næstu árum. Þá verð ég að minna á beiðni mína um sérstaka umræðu við hæstv. samgönguráðherra um samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona að sú beiðni mín nái fram að ganga fljótlega.