148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri til að fjalla svolítið betur um starfsemi skipulagðra glæpahópa hérlendis. Í umræðunni um daginn var ýmislegt ósagt.

Það er mat lögreglunnar að hér á landi starfi skipulagðir hópar brotamanna og margir þeirra hafi erlendar tengingar og styrkur þeirra sé að aukast.

Ég hef nefnt það hér í ræðustól að greiningardeild ríkislögreglustjóra metur áhættustigið sem mikla áhættu. Ég ætla að fara betur yfir stöðuna í brotaflokkum þar sem helst gætir skipulagðrar brotastarfsemi og eftirfarandi mat lögreglu og úr skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Smygl á fólki, mansal. Grunur leikur á að erlendir smyglhringar hafi Ísland sem áfangastað. Vísbendingar eru um að móttökukerfi fyrir hælisleitendur sé misnotað hér á landi og vitneskja er um skipulagða flutninga fólks frá öruggum ríkjum og grunsemdir hafa einnig vaknað um mansal og smygl á fólki.

Vændi. Fyrirliggjandi upplýsingar lögreglu benda til að skipulagt vændi hafi aukist stórlega á undanförnum árum og talar lögreglan um sprengingu í því sambandi. Hluti af þeirri starfsemi tengist erlendum skipulögðum glæpahópum.

Fíkniefni. Framboð fíkniefna og styrkleiki þeirra hefur aukist og fullyrðir lögregla að fíkniefnaneysla hafi aldrei verið meiri í Íslandssögunni. Lögreglan telur að skipulögð brotastarfsemi sé hvað greinilegust í innflutningi, framleiðslu, dreifingu og sölu fíkniefna og hlutur erlendra ríkisborgara þar umtalsverður. Mikil aukning er á innflutningi á kókaíni sem er skýrasta dæmið um aukin umsvif skipulagðra brotahópa á Íslandi og alþjóðlegra tenginga þeirra.

Auðgunarbrot. Skipulagðir þjófnaðir og innbrot eru hluti auðgunarbrota, en í þeim tilvikum er iðulega um erlenda afbrotahópa að ræða og eru þeir sumir hverjir afar sérhæfðir.

Ég hef einungis tæpt á stóru úr skýrslu lögreglu. En hvað er til ráða? Lögreglan kallar eftir auknum mannafla til að sinna frumkvæðisvinnu sem hún telur lykilatriði við að stemma stigu við vaxandi starfsemi skipulagðra brotahópa. Lögreglan kallar eftir auknum mannskap til að sinna almennri og sýnilegri löggæslu. Lögreglan hefur einnig kallað eftir því að öryggi starfandi lögreglumanna sé aukið að því leyti að menn sem sinni eftirliti verði í færri tilvikum einir, á þetta sérstaklega við úti á landi, (Forseti hringir.) og jafnframt að styttra verði í aðstoð en nú er. Við skulum sameinast um að svara þessu ákalli lögreglu með aðgerðum en ekki aðgerðaleysi.