148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma inn á störf hv. fjárlaganefndar. Fyrst vil ég víkja að samtali hv. þm. Þorsteins Víglundssonar þar sem hann spurði hæstv. ferðamálaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma, út í nokkra þætti er varða ferðaþjónustuna, gjaldtökumál o.fl., um málefni Isavia og fyrirhugaðar fjárfestingar og lántöku. Hæstv. ráðherra taldi að við þyrftum að skoða vel málefni Isavia, m.a. fjárfestingarnar og rekstrarformið, og ég tek undir með hæstv. ráðherra. Stórar innviðafjárfestingar eru pólitískt viðfangsefni, hvernig fjármögnuninni er háttað, og er verkefni tengt umfjöllun hv. nefndar um opinbera fjármálastefnu. Hvaða áhrif hafa þessar fjárfestingar og fjármögnunin á verðbólguþróun, framtíðartekjuöflun o.s.frv.? Þá má velta því fyrir sér hvaða veð liggja að baki lánsfjármögnuninni. Eru það framtíðartekjur eða eru það eignir hins opinbera í hinu stærra samhengi, mikilvægi ferðaþjónustunnar og aukið vægi í þjóðarbúskapnum, útflutningstekjur, framtíðarhorfur greinarinnar og áhrif á efnahagsframvinduna? Það eru risastórar spurningar sem vakna í þessu sambandi og eru á borði nefndarinnar.

Þá vil ég draga fram það sem vel er gert á vettvangi þings og í samskiptum þings og framkvæmdarvalds. Í fjárlögum samþykkti þingið viðbótarframlag til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, 400 millj. kr. Ákvörðun um þá ráðstöfun var tekin í kjölfar fundar nefndarinnar með öllum forstöðumönnum þessara stofnana og í samráði við hæstv. heilbrigðisráðherra. Úr varð þessi viðbótarráðstöfun og var sammælst við forstöðumenn og ráðherra um að þeir myndu síðan fara yfir þörfina og skiptinguna. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir lofaði að fylgja því eftir með fundi ráðuneytis og fjárlaganefndar um þessa ráðstöfun. Hæstv. ráðherra stóð við það loforð og sá fundur var í morgun, afar gagnlegur. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra, þinginu, nefndinni, vinnulaginu og, virðulegur forseti, þakka það sem vel er gert í okkar störfum.

(Forseti (SJS): Það er mjög vel til fundið.)