148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla einmitt um traust til þingsins, framkvæmdarvaldsins, þ.e. ríkisstjórnarinnar, og stjórnmála almennt. Það er ekki rétt að traust til Alþingis sé að lækka. Það er að aukast. Hins vegar er traust til dómstóla að minnka sem er líka alvarlegt. Ég nefni þetta í ljósi þess sem hv. þm. Brynjar Níelsson fór yfir áðan en einnig til að svara þeirri tilgátu hans, þess ágæta hv. þingmanns, að traustið aukist á Alþingi þegar við einhvern veginn sleppum því að tala of ónærgætið um það sem við sjáum að sé að í kerfinu okkar.

Ég held að sú tilgáta sé röng. Ég held að traust til Alþingis sé að aukast vegna þess að það hefur sést mjög vel hvernig Alþingi hefur verið að sinna eftirlitshlutverki sínu og aðhaldshlutverki í auknum mæli síðasta árið eða tvö.

Ég ætla bara að nefna tiltekna þingmenn sem hafa komið á kortið og inn í umræðuna alls konar hlutum sem hafa vissulega verið óþægilegir. Ég býst ekki endilega við því að það auki traust til Alþingis en traustið hlýtur að aukast þegar fólk sér að Alþingi er megnugt um aðhaldið sem og um eftirlitið, er til í að vera tæpitungulaust og vissulega nota orð eins og fúsk.

Það vill svo til að fúsk finnst í kerfinu okkar. Það finnst líka spilling í kerfinu okkar. Fólk veit þetta alveg og við erum ekkert að fara að sannfæra fólk um að svo sé ekki með því að þegja yfir því, svo mikið er víst. Ég hygg að traustið sé að aukast á Alþingi vegna þess að við sýnum í meira mæli að við séum til í þetta aðhald og þetta eftirlit. Það er mín tilgáta og ég held að hún sé rétt.

Varðandi atkvæðagreiðsluna í gær var ég að velta fyrir mér orðum frá hv. þingmönnum Vinstri grænna sérstaklega en líka orðum hæstv. fjármálaráðherra sem furðaði sig á því að vantrauststillagan fjallaði um einn tiltekinn ráðherra eins og það væri óhugsandi að einn ráðherra væri sá sem fólk vildi losna við úr embætti. Ég furðaði mig á því að hann furðaði sig á þessu en ég fattaði allt í einu í lokin hvað þetta er eftir að hafa hugsað aðeins um það. Stjórnmálamenningin á Íslandi gerir ráð fyrir fyrirbæri (Forseti hringir.) sem er kallað í daglegu máli samtrygging og er að mati sumra eitt form af spillingu.

Ég held að það sé það sem við höfum séð hérna í gær þótt ég viti vel að fólk sem tók þátt í þeirri umræðu væri ekki að reyna að stunda þessa samtryggingu. (Forseti hringir.) Hún er eðli þess að við séum með meirihlutastjórnvöld.

Því miður hef ég ekki meiri tíma en ég ætla að ræða þetta frekar í framtíðinni.