148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á ályktun á 48. þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem haldið var í nóvember 2017, fyrir skemmstu sem sagt, en kann að hafa horfið í öllum hinum mikla atgangi sem þá var í gangi, m.a. í kjölfar kosninga og annars af því tagi.

Þar er ályktun um útgerð kaupskipa þar sem segir að umrætt þing krefjist þess að stjórnvöld tryggi að útgerð kaupskipa á Íslandi verði samkeppnishæf í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi greinarinnar. Þar segir áfram, með leyfi forseta:

„Íslensk kaupskipaútgerð er þegar aflögð en tryggja verður að atvinnugreinin geti lifnað við og átt möguleika til framtíðar. Ljóst má vera að inn- og útflutningur þjóðarinnar mun ávallt byggjast á sjóflutningum …“

Hér er um mjög stórt mál að ræða, herra forseti. Það er rakið í greinargerð að búa þurfi kaupskipaútgerð samkeppnishæft skattumhverfi til samræmis við það sem alþjóðleg útgerð býr við. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Það er ekki frjáls þjóð sem ekki ræður yfir kaupskipaflota sínum.“

Eftir því sem næst verður komist eru nánast engin kaupskip eða jafnvel ekkert kaupskip skráð undir íslenskum fána. Þetta særir stolt okkar sem þjóðar og vegur að okkar hagsmunum eins og rakið er í þessari ályktun. Við megum ekki, herra forseti, víkja okkur undan því að rétta hlut landsins í þessu efni.