148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst það svolítið skemmtilegt að í þessum umræðutíma um störf þingsins erum við búin að vera að tala um störf þingsins svolítið konkret, þ.e. hvernig við tölum og hvernig við vinnum. Ég ætla þess vegna að nota alla vega hluta af máli mínu, kannski allt, í að ræða þetta. Hér hafa mörg ólík sjónarmið komið fram. Það var ágætt sem sá hv. þingmaður sem stóð hér á undan mér sagði um rök, rökvillur og orðanotkun. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum alltaf að hafa í huga, bæði hvernig við setjum málið fram og ekki síður hvernig við gagnrýnum aðra því að það er jú það sem við eigum að gera hérna.

Við erum kosin af fólki sem hefur ólíka sýn á það hvernig á að reka samfélag. Við erum fulltrúar fyrir þetta fólk og þess vegna er eðlilegt að við tölum hér fyrir ólíkum sjónarmiðum. Það er eðlilegt að við tökumst á um ólík sjónarmið, en það flókna úrlausnarefni sem við fáum líka er að reyna að ná samstöðu og sem mestri sátt um þessi ólíku sjónarmið. Það getur verið býsna erfitt, sérstaklega þegar langt er á milli hjá okkur, en það gerir verkefnið sem við stöndum frammi fyrir ekkert minna mikilvægt heldur einmitt mikilvægara.

Nú sýnist mér að ég ætli að eyða öllum ræðutíma mínum í að ræða þetta, en mér finnst við nefnilega ekki bara vera að skauta á yfirborðinu með því að ræða um umræðuna. Það snýst nefnilega líka um að minna okkur á að það er hið pólitíska inntak í öllu því sem við tölum (Forseti hringir.) um hér á Alþingi sem skiptir máli. Þar þurfum við að vanda okkur. Það þurfum við öll að gera en það er það sem verkefnið er.