148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er sett á dagskrá, þ.e. skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

Hér er um að ræða eina af fjölmörgum skýrslum Ríkisendurskoðunar, en hún er sérstaklega mikilvæg vegna þess hversu víðtækar ályktanir má draga af henni. Ef marka má yfirskriftina fjallar hún fyrst og fremst um Sjúkratryggingar Íslands og þátt þeirrar stofnunar í því að kaupa heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum. En þegar betur er að gáð og þegar rýnt er í umfjöllun og niðurstöður skýrslunnar má ljóst vera að hér er miklu frekar verið að fjalla í raun og veru um stefnu og stefnuleysi íslensks heilbrigðiskerfis. Af þeim sökum óskaði ég eftir því við Alþingi að fá að ræða málið við þingið.

Ég tel að hér sé um að ræða mjög góðan grunn til að byggja áframhaldandi stefnumörkun á, en markmiðið var auðvitað fyrst og fremst að meta frammistöðu Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu. Ríkisendurskoðun fór þá yfir samninga með hliðsjón af umfangi, hagsmunum o.s.frv. og varð sérstaklega litið til rammasamninga. En niðurstaðan var kannski miklu frekar sú að það sem væri áhyggjuefni í íslensku heilbrigðiskerfi væri skortur á heilbrigðisstefnu.

Ég hef áður látið þess getið við Alþingi að ég telji rétt að við freistum þess að setja saman heilbrigðisstefnu í þverpólitískri sátt og það er bara eitt af þeim krefjandi verkefnum okkar sem hér erum og líka að rísa undir nafni sem þing sem er traustsins vert og við gætum þá enn og aftur fengið tækifæri til þess að auka tiltrú og traust almennings í landinu á Alþingi.

Vegna þess að tíminn til umræðunnar er ekki langur langar mig kannski fyrst og fremst að víkja orðum að þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni, annars vegar til velferðarráðuneytisins og hins vegar til Sjúkratrygginga Íslands. En þar sem Sjúkratryggingar Íslands eru ein af stofnunum ráðuneytisins má segja að allar ábendingarnar sem beinast að Sjúkratryggingum sérstaklega beinist með óbeinum hætti að velferðarráðuneytinu og yfirstjórn heilbrigðismála. Ríkisendurskoðun vísar því til velferðarráðuneytisins að rétt sé að marka þurfi stefnu um heilbrigðisþjónustu, eins og áður er vikið að, og í öðru lagi að tryggja þurfi eðlilega verkaskiptingu við gerð samninga. Þær athugasemdir sem beint er til Sjúkratrygginga Íslands lúta að því að styrkja þurfi innviði Sjúkratrygginga Íslands, gera þurfi nauðsynlegar greiningar vegna samninga, gera þurfi auknar gæðakröfur í samningum um heilbrigðisþjónustu, tryggja þurfi markviss kaup á heilbrigðisþjónustu og þróa þurfi samning um framleiðslutengda fjármögnun, eins og það er orðað.

Um fyrstu ábendinguna, þ.e. að okkur beri að setja hér heilbrigðisstefnu til að Sjúkratryggingar Íslands og aðrar heilbrigðisstofnanir fái má segja kompás til að sigla eftir, að við vitum á hvaða leið við erum, er því til að svara að mitt mat er að þessi ábending sé ekki bara þörf heldur sé hún nauðsynleg. Það er afar nauðsynlegt að setja það í skýrt samfélagslegt samhengi að við verðum að setja heilbrigðisstefnu ef við ætlum að stilla alla þessa þætti af. Þess vegna verður heilbrigðisstefnan aldrei í lausu lofti og verður aldrei marklaust plagg heldur grundvallarplagg í samfélagssáttmálanum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að við munum „fullvinna heilbrigðisstefnu […] með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra“.

Ég vil geta þess sérstaklega og ítreka það í þessari umræðu að mín afstaða er að þessi stefna eigi að vera stefna sem lifir af kosningar og snúist í raun um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða búsetu þar sem almannafé er skynsamlega ráðstafað, þar sem inntakið er gæði og jöfnuður númer eitt, tvö og þrjú. Vinna er í raun og veru hafin að þeirri stefnumótun og þegar hefur verið skipaður starfshópur með forstjórum heilbrigðisstofnana sjúkrahúsanna tveggja og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins varðandi þjónustu sérgreinalækna innan heilbrigðisstofnana og hvernig samstarfi stofnana skuli háttað. Hópnum hefur verið falið að greina hvaða þjónustu sé æskilegt að veita á heilbrigðisstofnunum landsins og hvernig best sé að tryggja aðgengi sjúklinga að þeirri þjónustu.

Ráðuneytið hefur í samstarfi við embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands unnið að því að greina þá læknisþjónustu sem veitt er á heilbrigðisstofnunum og sjálfstætt starfandi læknum, sem er grunnur að vinnu hópsins. En Ríkisendurskoðun finnur að því ítrekað í skýrslunni að bæta megi umtalsvert verkaskiptingu og samstarf einstakra aðila innan heilbrigðiskerfisins og víkur þá sérstaklega orðum að samspili Sjúkratrygginga Íslands og embættis landlæknis annars vegar og hins vegar Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans. Þarna er auðvitað um að ræða líka samspil við velferðarráðuneytið á hverjum tíma.

Varðandi verkaskiptinguna sem hér er vikið að, að tryggja þurfi eðlilega verkaskiptingu við gerð samninga, er því til að svara varðandi þá vinnu sem þegar er hafin í ráðuneytinu að við í grunninn, og sú sem hér stendur, tökum mjög eindregið undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að við þurfum að skerpa á verkaskiptingu og ábyrgðarskilum við gerð samninga um heilbrigðisþjónustu. Síðustu mánuði hefur ráðuneytið unnið nánar með Sjúkratryggingum Íslands við gerð samninga, einkum í ljósi þess að skýr stefnumörkun innan heilbrigðisþjónustunnar liggur ekki fyrir. Því má segja að ráðuneytið hafi í ljósi þessa komið á framfæri stefnumörkun í einstaka málum til að unnt sé að vinna samninga út frá þeim sjónarmiðum. Þó ber auðvitað að hafa í huga þá alvarlegu ábendingu sem fram kemur í skýrslunni, sem er sú að stefna heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu ætti að vera grunnforsenda í starfsemi Sjúkratrygginga Íslands en þar sem hún sé ekki fyrir hendi hafi tilhneigingin verið sú að í fyrsta lagi hafi áherslur fjárlaga, í öðru lagi tímabundin átaksverkefni og í þriðja lagi úrlausn tilfallandi vandamála verið þeir þættir sem skapa heilbrigðisstefnuna á hverjum tíma og þar með lagt grunn að þróun heilbrigðiskerfisins sem enginn sér fyrir endann á hvert markmiðið sé með, heldur sé þetta tilviljunum háð á hverjum tíma. Ég held að það sé afar mikilvægt að horfast í augu við þennan þátt.

Ráðuneytið vill líka vinna að því og er að vinna að því að skýra verklag á milli stofnananna og styðja Sjúkratryggingar Íslands í því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, þ.e. með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ráðuneytið telur að með heilbrigðisstefnu og skýrari verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar verði unnt að leysa úr þeim samskiptavandamálum og togstreitu sem gætt hefur á milli stofnananna og Ríkisendurskoðun vísar til í skýrslunni.

Það hlýtur að verða svo með þessa skýrslu og ég vil bara brýna Alþingi með það almennt að það er oft alveg gríðarlega mikill og góður efniviður í skýrslum Ríkisendurskoðunar, sem er eitt af verkfærum Alþingis til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit, að fylgja eftir ábendingum af þessu tagi, kalla ráðuneytin og stofnanirnar til fundar við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða fastanefndir þingsins eftir atvikum og spyrja hvernig brugðist er við einstökum ábendingum í svona skýrslum. Ríkisendurskoðun er alveg gríðarlega mikilvægt verkfæri í þeim efnum.

Hér er í grundvallaratriðum verið að segja: Íslenska heilbrigðiskerfið hefur þróast tilviljanakennt, það skortir heildarsýn, það skortir framtíðarsýn, skort hefur á skýra verkaskiptingu og skýrt samspil einstakra þátta kerfisins og við það verður ekki unað af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þá erum við ekki að ráðstafa opinberu fé sem við eigum að ráðstafa með sem skynsamlegustum hætti fyrir hönd almennings í landinu. Það er ekki verið að ráðstafa því með tryggum, fyrirsjáanlegum og markvissum hætti og hins vegar vegna þess að hætta er á því í kerfinu eins og það er, vegna þess hversu ómarkviss kaup á heilbrigðisþjónustu eru, að við sitjum uppi með tvennt, annars vegar mögulegar oflækningar, þ.e. offramboð á þjónustu, og hins vegar biðlista, þ.e. skort á þjónustu. Þetta ójafnvægi sem við sjáum á Íslandi í ríkari mæli en í löndunum í kringum okkur, annars vegar framboð og hins vegar biðlistar, endurspeglar þetta stefnuleysi.

Ég treysti því að ég eigi Alþingi að í því að einhenda mér í þetta verkefni og lít á það sem sameiginlegt verkefni sem er ekki verkefni núverandi ríkisstjórnar, heldur verkefni Alþingis sem ætlar að rísa undir auknu trausti. Ég sem handhafi framkvæmdarvalds í þessum málaflokki heiti því að halda á því kefli eins vel og mér er unnt.