148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[15:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands. Það er vel til fundið að gera það. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég tek heils hugar undir með henni þegar hún segir að heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn, gæði og jöfnuður, sé inntak sem stefna þurfi að. Þessi skýrsla hefur í sér fólgnar ýmsar þarfar ábendingar og bendir á hvað betur megi fara og er líka góð byrjun fyrir nýjan ráðherra til að byggja upp betra og heilbrigðara heilbrigðiskerfi. Það þarf að ákveða, eins og kemur fram í skýrslunni, hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir ríkisins eiga að veita og hvaða þjónustu á að kaupa af öðrum aðilum og í hvaða magni. Út frá þeirri stefnumörkun þarf ráðuneytið að sjá til þess að Sjúkratryggingar Íslands og aðrar lykilstofnanir heilbrigðiskerfisins vinni á samhæfðan hátt að settum markmiðum. Það er góð leiðbeining inn í framtíðina, auk þess sem auka þarf gæðaeftirlit, ekki bara hjá Sjúkratryggingum heldur líka innan stofnananna sjálfra, það þekkjum við. Það er gríðarlegt atriði að auka gæðaeftirlit svo að meta megi þjónustuna út frá sömu forsendum. Ríkisendurskoðun hvetur Sjúkratryggingar Íslands til að setja fram ítarlega kröfulýsingu um magn og gæði þeirrar þjónustu sem samið er um hverju sinni. Í því sambandi ber að styðjast við klínískar leiðbeiningar og læknisfræðilegar ábendingar svo að sjúkratryggðir njóti viðeigandi þjónustu óháð búsetu.

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt um það í þessum sal að víða á landsbyggðinni situr fólk ekki við sama borð og þeir sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Vestmannaeyjum hefur t.d. ekki verið fullkomin fæðingaraðstoð árum saman. Talið er að slík fullmönnuð þjónusta í Vestmannaeyjum myndi kosta 250 milljónir á ári. Það er vont í eyjasamfélagi þar sem samgöngurnar geta verið erfiðar, jafnvel fallið niður í verstu tilfellum, að hafa ekki fæðingarþjónustu. Við þekkjum það öll, hvert úr okkar fjölskyldu sem búum á landsbyggðinni, að einhver þarf að koma hingað til Reykjavíkur, búa hér dögum og vikum saman og bíða eftir að eiginkona, systir, frænka eða dóttir eignist barnið sitt. Það þekkjum við öll. Maki fylgir með og jafnvel börn. Þetta er kostnaðarsamt, ekki aðeins fyrir viðkomandi fjölskyldur heldur fyrir samfélagið allt. Það er viðeigandi þjónusta að geta fætt barn í sinni heimabyggð. Ég veit að það eru líka annmarkar á því. Það eru kannski ekki til nógu margir sérfræðingar en við þurfum eftir fremsta megni að veita viðeigandi þjónustu óháð búsetu eins og ráðherra minntist á í upphafi, gæði og jöfnuð. Ég er henni hjartanlega sammála um það. Það er gríðarleg áskorun fyrir okkur að ná því, góð leiðbeining til að fara eftir.

Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands hafa unnið að því að greina læknisþjónustu sem veitt er á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi læknum samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Á slíkur hópur að skila ráðherra skýrslu árið 2018. Við þekkjum það öll að verktaka í heilbrigðisþjónustu er þekkt fyrirbrigði, verktakar eru nauðsynlegir. Við sjáum það á landsbyggðinni. Það er mjög mikilvægt fyrir mörg læknisumdæmi hér á landi að hægt sé að hafa aðgang að verktökum til að sinna þjónustu á stöðum þar sem erfitt er að fá lækna. Mér finnst reyndar að þessi starfsemi sé orðin það víðtæk að undirliggjandi læknaskortur í landinu komi frekar fram í því að fjölmargir læknar nota allan sinn frítíma til að fara út á landsbyggðina, halda uppi þjónustu, sem er gott; dvelji þar jafnvel í vikutíma og vinni allan sólarhringinn í sjö daga. Það er ekki alveg samkvæmt þeim reglum sem gilda um hvíldartíma fólks á vinnumarkaði, að vinna í 24 tíma á sólarhring dögum saman. Það er ekkert eðlilegt við það. Þó að við séum ánægð með að slík þjónusta sé í boði getur það ekki verið lausnin sem við viljum horfa á til framtíðar.

Í Reykjanesbæ er mikill skortur á heilsugæslulæknum. Þar er biðstofan á heilsugæslunni tóm allan daginn þar til seinni partinn. Læknar sem hafa lokið störfum hér upp úr miðjum degi keyra Reykjanesbrautina og taka við sjúklingum á heilsugæslunni frá því klukkan fjögur eða fimm síðdegis til átta, með svokölluðum grænum miðum. Við vitum líka, sem höfum nýtt okkur þá þjónustu, og rætt þetta við læknana, að auðvitað er þetta ekki sú þjónusta sem samfélög vilja búa við. 25.000 manna samfélag á Suðurnesjum vill ekki búa við þá þjónustu að þurfa að leita til lækna eftir lokun á daginn; snöggsoðin þjónusta eins og þeir viðurkenna sjálfir. Þeir eru allir af vilja gerðir, enginn tími til að fara yfir sjúkrasöguna, enginn tími til að velta hlutunum fyrir sér, heldur eru þetta svona reddingar yfir borðið. Ég er ekki að gera lítið úr neinum, hvorki læknum né öðrum. Ég er bara að segja að svona er staðan. Þetta búum við við á Suðurnesjum, ekki bara einhverja daga í viku heldur allar vikur og alla mánuði í mörg ár.

Við viljum ekki svona þjónustu. Við viljum alvöruþjónustu, að við getum komið á heilsugæsluna okkar frá klukkan átta á morgnana til fjögur á daginn þegar hún er í raun að opna eins og staðan er núna. Ég veit, eftir samtöl mín við hæstv. heilbrigðisráðherra, að hún vill breyta þessu, en það þarf kannski meira en hennar vilja til þess. Það þarf almennan nýjan anda í þessar umræður svo að við getum farið að bjóða öllum landsmönnum óháð búsetu upp á góða læknisþjónustu. Við erum búin að laga laun lækna mjög mikið og það á að verða til þess að þeir vilji koma hingað heim, vilji starfa á heimavelli, vera í þessu samfélagi sem er svo gott og gefandi og láta gott af sér leiða. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það getur líka hjálpað okkur ef fé fylgir sjúklingunum eins og reyndar er farið að gera. Á Suðurnesjum hefur íbúum fjölgað um 21% á liðnum þremur árum. Á síðasta ári fluttu þangað 2.700 manns, það eru jafn margir og búa í Garði og Sandgerði. Það er eins og þeir hafi allir flutt yfir heiðina á einum degi í Reykjanesbæ. Á sama tíma aukast framlög til sjúkrahússins um 1% á ári og þar af er 0,5% hagræðingarkrafa. Það er erfitt að bæta þjónustuna þegar íbúum fjölgar svo ört en peningarnir fylgja ekki.

Ég vil rétt í lokin minna á að útgjöld vegna sjúkratrygginga á árunum 2012–2016 hafa aukist verulega. Þannig hefur lækniskostnaður hækkað um 60%, S-merkt lyf um 23%, hjálpartæki um 30%, tannlækningar um 125% og sjúkraflutningar og ferðir innan lands um 68%; samtals hafa þessir liðir hækkað um 30%. Það er því auðvitað verið að bæta í en betur má ef duga skal. Þessi skýrsla er ágæt byrjun og ágætt „platform“ til að spyrna sér upp.