148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[16:10]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Skýrslan kom út núna í febrúar. Helstu niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru að það skortir heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu en því miður hefur engin stefna verið í þessum stóra og mikilvæga málaflokki til fjölda ára. Undanfarin ár hafa allir hæstv. heilbrigðisráðherrar talað um mikilvægi þess að lögð verði fram heildstæð heilbrigðisáætlun en hún hefur ekki litið dagsins ljós. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð mikil áhersla á þessi mál en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda.“

Mikilvægt er að þessari vinnu verði lokið sem allra fyrst. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er einnig bent á togstreitu milli lykilstofnana í heilbrigðiskerfinu, þ.e. Sjúkratrygginga Íslands, embættis landlæknis og Landspítala. Að mati Ríkisendurskoðunar stafar sú togstreita að hluta til af óljósri stefnu stjórnvalda um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Þetta hefur hamlað því að samningar, kaup og greiðsluþátttaka vegna heilbrigðisþjónustu séu markviss og þjóðhagslega hagkvæm.

Ríkisendurskoðun telur einnig að efla þurfi getu Sjúkratrygginga Íslands til að semja um kaup á heilbrigðisþjónustu á markvissan hátt. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf jafnframt að skýra ábyrgð og hlutverk velferðarráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands við kaup á heilbrigðisþjónustu. Dæmi er um að ráðuneytið hafi gert samninga án aðkomu stofnunarinnar eða hafi einhliða ákvarðað forsendur samninga líkt og í tilfelli rammasamnings um lækningar utan sjúkrahúsa. Auk þess telur Ríkisendurskoðun að skýra þurfi ábyrgð og hlutverk velferðarráðuneytis og Sjúkratrygginga Íslands við kaup á heilbrigðisþjónustu, að greina þurfi betur þarfir sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu og að setja þurfi fram ítarlegar kröfulýsingar um magn og gæði þeirrar þjónustu sem samið er um hverju sinni. Í því sambandi ber að styðjast við klínískar leiðbeiningar og læknisfræðilegar ábendingar svo að sjúkratryggðir njóti viðeigandi þjónustu óháð búsetu en samningar sjúkratrygginga hafa rík áhrif á þróun heilbrigðiskerfisins.

Hæstv. forseti. Forgangsmál þingflokks Framsóknarmanna á kjörtímabilinu 2016–2017 var tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Markmið tillögunnar var að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Samkvæmt tillögunni átti að vinna heilbrigðisáætlunina í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum. Við gerð hennar átti m.a. að taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að markmiðið með þingsályktunartillögunni sé að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Í aðdraganda alþingiskosninganna 2016 voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfi á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins.

Í þessu samhengi og málinu til stuðnings má benda á að í McKinsey-skýrslunni sem kom út árið 2016 kemur fram að heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi árið 2014 námu 8,8% af vergri landsframleiðslu sem er nálægt meðaltali OECD-ríkjanna en lægra en annars staðar á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Mat á útgjaldaþörf til heilbrigðismála á Íslandi krefst þess að horft sé til skilvirkni annarra heilbrigðiskerfa og tekið mið af land- og lýðfræðilegum þáttum sem áhrif hafa á þörf landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Ýmsir undirliggjandi þættir eru fyrir hendi á Íslandi sem hafa áhrif á skilvirkni og gæði heilbrigðisþjónustunnar og draga úr útgjaldaþörf til heilbrigðiskerfisins. Aftur á móti er einnig að finna óskilvirkni í íslenska heilbrigðiskerfinu sem veldur aukinni útgjaldaþörf.

Í lokaniðurstöðu McKinsey-skýrslunnar segir síðan m.a. að það séu áhugaverðir tímar í íslenskri heilbrigðisþjónustu, heilbrigðiskerfið hafi staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum í kjölfar bankahrunsins þegar fjárframlög til þess voru skert verulega en því tókst að komast í gegnum erfiðleikana og veita áfram gæðaþjónustu. Þróunin á Landspítalanum var að mörgu leyti táknræn fyrir þetta tímabil. Spítalanum tókst að lækka kostnað umtalsvert án þess að fórna gæðum þjónustunnar samhliða síaukinni eftirspurn.

Þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu á síðustu árum er ekki allt eins og best verður á kosið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skortir skýrari verkaskiptingu milli hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustunnar og sömuleiðis stjórntæki sem gerir okkur kleift að stýra þróuninni. Auk þess hefur í þessari skýrslu okkur verið bent á kerfislæg vandamál sem takmarka kostnaðarhagkvæmni eða vekja upp spurningar um gæði þjónustu í ákveðnum hlutum kerfisins.

Í lokaniðurstöðu skýrslunnar segir einnig að undanfarin ár hafi átt sér stað aukning í fjárframlögum til heilbrigðismála á Íslandi og því hafi skapast einstakt tækifæri að takast á við þessi vandamál og tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið veiti gæðaþjónustu á öllum sviðum. Með skýrri stefnu í heilbrigðismálum og auknum fjárveitingum þangað sem þörfin er mest verður tryggt að fjárfestingar nýtist sem best sem leiðir til sterkara og hagkvæmara kerfis.

Í ljósi þessara niðurstaðna sem birtust í McKinsey-skýrslunni og vegna skorts á stefnu í heilbrigðismálum lögðu flutningsmenn tillögunnar til að unnin yrði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og að sú vinna yrði unnin eins skjótt og auðið væri. Flutningsmenn tillögunnar töldu og telja enn mikilvægt að fagfólk í heilbrigðisstéttum komi að vinnunni því að það þekkir best til og gagnlegt er að nýta þekkinguna og mannauðinn sem er fyrir hendi. Mikilvægt er að fagfólk komi víða að af landinu því að aðstæður í heilbrigðiskerfinu geta verið mismunandi eftir því hvort unnið er á stórum spítala eða á minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Við gerð heilbrigðisáætlunarinnar verði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt verði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða og aðgangs að sjúkraflugi, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítalanum. Samkvæmt upprunalegri tillögu átti að leggja fram heilbrigðisáætlun á Alþingi í desember 2017.

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja að nokkur samhljómur sé milli McKinsey-skýrslunnar og niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er nauðsynlegt að komið verði á fót skýrri heilbrigðisstefnu í landinu þar sem markmið og gjörðir fara saman. Það er nauðsynlegt upp á traust, trúverðugleika og þá ímynd sem við viljum hafa í þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Þetta forgangsmál okkar Framsóknarmanna var samþykkt á Alþingi þann 31. maí 2017. Í efnislegri vinnslu við málið innan velferðarnefndar voru ýmsar breytingar gerðar á tillögunni sem fólu m.a. í sér að fjármála-og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið kæmu að vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum. Auk þess var skýrt tekið fram að markviss vinna að heilbrigðisáætlun ætti að hefjast strax árið 2017. Samkvæmt samþykktri tillögu átti Alþingi að verða upplýst um framgang málsins eigi síðar en í upphafi hausts 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu væri lokið.

Við vitum öll hvað gerðist þá, en ég vil hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að byrja ekki á grunni við gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland heldur nýta sér þá vinnu sem er til innan ráðuneytisins svo að verkefnið vinnist hratt og vel. Það er nauðsynlegt svo að heilbrigðiskerfið okkar og stofnanir þess virki eins og til er ætlast.