148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[16:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Kjarni málsins er þessi: Það hefur ekki verið mótuð heildstæð heilbrigðisstefna fyrir landið og má telja ótrúlegt andvaraleysi á hinum stjórnmálalega vettvangi að láta þetta viðfangsefni dankast með þessum hætti. Það gefur auðvitað augaleið að Sjúkratryggingar geta ekki farið eftir stefnu sem ekki er til. Ekki bætir úr skák að stjórn Sjúkratrygginga er falið lögboðið hlutverk um mótun langtímastefnu á sínum vettvangi en hefur ekki gert það. Vitaskuld er það svo, herra forseti, að það er engin leið að ná hagkvæmni og skilvirkni í samningum ef engri stefnu er fyrir að fara.

Merkilegt er til þess að hugsa að hér er búið að fara í gegnum þrjár fjármálaáætlanir á grundvelli nýrrar stefnumörkunar í ríkisfjármálum og nýs lagaramma á grundvelli laga um opinber fjármál þar sem mikil áhersla er lögð á stefnumörkun á einstökum málefnasviðum en samt stöndum við í þeim sporum að Ríkisendurskoðun gerir leit og finnur enga stefnu í einum stærsta útgjaldamálaflokknum. Við þau skilyrði sem uppi eru í þessum efnum virðist sem stefnumótunin falli í hendur þeirra stofnana sem gera samninga sem í raun verða þá stefnumótandi fyrir heilbrigðiskerfið.

Það er sýnt í skýrslunni að ábyrgð og hlutverk ráðuneytis og Sjúkratrygginga og mörkin þarna á milli eru óskýr. Þarna eru rakin ýmis dæmi sem auðvitað tala sínu máli. Það er dæmi um samning sem ráðuneytið hefur gert án aðkomu Sjúkratrygginga. Þannig hefur ráðuneytið einhliða ákveðið forsendur samninga líkt og þegar gerður var rammasamningur um lækningar utan sjúkrahúsa. Auk þess hefur ráðuneytið falið Sjúkratryggingum að kaupa þjónustu sem uppfyllir ekki faglegar kröfur sem þó eru gerðar í lögum. Dæmi sem tilgreint er um þetta er meðferðarþjónusta í Krýsuvík. Þá hafa verið gerðir samningar um kaup á heilbrigðisþjónustu sem eru ekki að fullu í samræmi við ákvæði laga um tilgreint magn, skýr gæði og jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Landlæknir hefur bent á að í einhverjum tilfellum kunni að vera um óeðlilega mikla notkun á þjónustu að ræða.

Herra forseti. Um það að fela Sjúkratryggingum við þessar aðstæður stefnumótandi hlutverk eins og einhverjar ráðagerðir sýnast vera uppi um segi ég: Nei, það getur ekki komið til álita. Ráðuneytið getur ekki vikið sér með þeim hætti undan ábyrgð á sínu stefnumörkunarhlutverki.

Herra forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar felur í sér þungan áfellisdóm. Heilbrigðisráðherra stendur frammi fyrir stóru verkefni sem er, eins og rakið er í skýrslunni á bls. 6, með leyfi forseta:

„Velferðarráðuneyti þarf að marka heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands geta byggt á við samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu.“

Verkefni ráðherra er að sjálfsögðu víðtækara og það er að fara að öðrum ábendingum í þessari mikilvægu og þörfu skýrslu, eins og þær eru raktar á bls. 6 og 7. Ég árna heilbrigðisráðherra allra heilla og góðs gengis í þessu mikilvæga viðfangsefni.