148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[16:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þessi nýútkomna skýrsla Ríkisendurskoðunar, um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, er um margt athyglisverð, ekki síst vegna þess að hún er enn ein áminningin um að það er brýnt að við tökum sem fyrst á því stóra verkefni sem það er að móta stefnu í heilbrigðismálum til framtíðar. Ég ætla að vitna í orð Birgis Jakobssonar, sem enn er landlæknir, úr viðtali við RÚV í nóvember sl. Hann sagði þar að það væri hættulegt að bæta fjármunum í heilbrigðiskerfið án þess að breyta því líka. Það þurfi meira fjármagn en það leysi ekki allt, að huga þurfi að skipulagsbreytingum. Um þetta snýst málið að stórum hluta. Hvernig ætlum við að breyta skipulagi heilbrigðiskerfisins á Íslandi samhliða því að mæta mikilli og uppsafnaðri þörf fyrir aukið fjármagn, breyta á þann hátt að við stöndum við stóru orðin?

Lög um heilbrigðisþjónustu kveða nefnilega á um að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Meðal þess sem kemur fram hjá Ríkisendurskoðun eru ábendingar um að bæta þurfi samninga Sjúkratrygginga Íslands um heilbrigðisþjónustu. Að mati stofnunarinnar verður ekki séð að þeir samningar hafi almennt tryggt markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Einnig megi efast um að samningarnir séu í öllum tilfellum hagkvæmir eða stuðli að aukinni skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild. Þar má sérstaklega nefna sem dæmi að þeir hafi ekki stuðst við fullnægjandi greiningar á þörfum, á kostnaði og á ábata, auk þess sem gerðir hafi verið samningar sem kveði ekki nægilega skýrt á um skilgreint magn, gæði eða jafnt aðgengi landsmanna.

Í úttektinni er nefnt mikilvægi þess að eðlileg verkaskipting við gerð slíkra samninga sé fyrir hendi, merkilegt nokk, að dæmi séu um að ráðuneyti heilbrigðismála hafi gert slíka samninga án aðkomu Sjúkratrygginga eða að ráðuneytið ákveði einhliða forsendur slíkra samninga. Það er óeðlilegt að mínu mati, það er óeðlilegt að mati Ríkisendurskoðunar og það var óeðlilegt að mati löggjafans þegar lög um sjúkrastofnun voru samþykkt. Samhliða því að árétta mikilvægi aðkomu Sjúkratrygginga er tekið fram í skýrslunni að efla þurfi nauðsynlega fagþekkingu innan stofnunarinnar og getu hennar til að annast þessar greiningar, vinna að gerð samninga og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Ríkisendurskoðun hvetur með öðrum orðum til þess að Sjúkratryggingar séu efldar á þann hátt að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu en markmið laga um sjúkratryggingar er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði, jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og að stuðla að rekstrarhagkvæmni og þjóðhagslegri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum þjónustunnar. Síðan er það líka hlutverk laganna að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina þjónustuna. Ef vel er að verki staðið þá er þetta til bóta.

Ég nefndi áðan að málið snerist að miklu leyti um það hvernig við ætluðum að breyta skipulagi kerfisins á þann hátt að við gætum staðið við stóru orðin. Í úttekt Ríkisendurskoðunar er því beint til velferðarráðuneytisins að marka stefnu um heilbrigðisþjónustu og sjá til þess að lykilstofnanir kerfisins vinni á samhæfðan hátt að markmiðum hennar. Í slíkri stefnumörkun þarf að vera skýrt hvaða þjónustu stofnanir eigi að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum. Það stefnuleysi sem einkennir heilbrigðismál hafi leitt til þess að það séu áherslur fjárlaga hverju sinni, tímabundin átaksverkefni og úrlausn tilfallandi vandamála sem hafi fengið að móta ákvarðanir um samninga um heilbrigðisþjónustu og þar með þróun kerfisins. Þarna hefur stefnumótunin legið. Þetta er stóra verkefnið. Hvar eru greiningarnar um þörf fyrir heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð og með hvaða hætti hefur slík þörf verið greind til dagsins í dag?

Það er ljóst að skýrsla Ríkisendurskoðunar gefur heilbrigðisyfirvöldum ekki háa einkunn þegar kemur að framkvæmd ákveðinna samninga um einkarekstur í tilteknum greinum og það er miður. Ég er þeirrar skoðunar, og stefna Viðreisnar er sú, að til þess að ná þeim háu og góðu markmiðum um heilbrigðisþjónustu sem allir landsmenn eigi að njóta og greidd á að vera úr sameiginlegum sjóðum sé fjölbreytt rekstrarform jákvætt svo lengi sem jafnræðis sé gætt í fjármögnun á milli ólíkra rekstrarforma, þar með talið hins opinbera. Aukin afköst, aukin skilvirkni og betri meðferð fjármuna — þetta hljóta að þurfa að vera leiðarljósin í þessum málaflokki samhliða nauðsynlegri og óumdeilanlega mikilvægri áherslu á gæði þjónustunnar og þar með talið áherslur fyrir notendur hennar og þá sem hana veita. Eitt atriði sem er brýnt í þessari nálgun, og sem Ríkisendurskoðun nefnir sérstaklega, er mikilvægi þess að nýr samningur Sjúkratrygginga við Landspítala, um framleiðslutengda fjármögnun, verði þróaðar áfram til þess einmitt að hámarka skilvirkni og hagkvæmni spítalans. Það er mjög brýnt að klára þessi mál, ekki eingöngu vegna áhrifa á spítalann, sem Ríkisendurskoðun tiltekur sérstaklega, heldur gerir þetta samvinnu heilbrigðisstofnana skilvirkari, auðveldari, þar með talið samvinnu stofnana þvert yfir ólík rekstrarform, stofnana sem hafa sama markmið, að veita öllum fyrsta flokks þjónustu í heilbrigðismálum. Lykilatriðið er framtíðarsýn, heilsteypt stefna, markmið, verkferlar og síðan eftirfylgni — að öll þessi atriði séu til staðar, séu í lagi og þeim fylgt eftir. Og það á jafnt við um opinberan rekstur sem einkarekstur.

Í heilbrigðiskafla stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að hún muni fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Það er vel. Hins vegar er ekkert rætt um nýtingu fjármagns eða afköst en þetta þarf að fara saman ef vel á að vera. Ég verð að beina máli mínu að stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki en sá flokkur hefur um nokkurt skeið farið með málefni heilbrigðismála. Stefna hans hefur orðið undir í ríkisstjórnarsamstarfinu í þessum atriðum. Ég ætla að leyfa mér að vitna í stefnuskrá þess flokks, með leyfi forseta:

„Horfa verður til þess hvort hægt sé að nýta skattfé betur og auka þjónustu með því að nýta áfram möguleika á fjölbreyttu rekstrarformi með áherslu á skýrar gæðakröfur samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.“

Það má reyndar segja að þessarar fyrrum áherslu Sjálfstæðisflokksins, um kosti einkaframtaksins, sjái ekki víða stað í stjórnarsáttmálanum, eða í störfum ríkisstjórnarinnar ef út í það er farið. Það er, merkilegt nokk, helst hæstv. utanríkisráðherra sem nýtir kosti einkaframtaksins með samkomulagi við einkaaðila, t.d. Samtök atvinnulífsins, um ákveðin verkefni og ákveðna ráðgjöf sem lýtur að því að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna. Það er þó fagnaðarefni því að það skiptir máli að leita til og treysta einkaaðilum til að koma að borðinu. Það þarf einfaldlega að vanda til verka.

Það eru ágæt lokaorð hér, að mínu viti: Skýrsla Ríkisendurskoðunar er mikilvægt innlegg í þá brýningu sem fleiri hafa staðið í undanfarin ár, brýningu til heilbrigðisyfirvalda um að vanda til verka. Það má ekki þýða verkleysi vegna þess að við megum ekki við því lengur. Það þarf að þora og það þarf að vanda til verka og þar erum við í Viðreisn tilbúin.