148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[16:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar í þeirri skýrslu sem við ræðum hér eru skýrar og þær eru afgerandi. Það er gott því að ekki er með nokkru móti mögulegt að misskilja ábendingarnar að mínu mati. Ábendingarnar eru afar mikilvægar og það er líka mjög mikilvægt að ráðist sé af festu í úrbætur. Stefnuleysi undanfarinna ára í heilbrigðismálum er farið að bitna illilega á þjónustu við almenning og í raun grefur stefnuleysið undan kerfinu í heild.

Ríkisendurskoðun kallar eftir stefnumótun eins og lög gera ráð fyrir og þar er heilbrigðiskerfið allt undir. Eins og fleiri ræðumenn hafa dregið fram í umræðunni hafa kaup og sala Sjúkratrygginga Íslands að miklu leyti ráðist af áherslum fjárlaga, tímabundnum átaksverkefnum og úrlausnum tilfallandi vandamála hverju sinni. Við slík skilyrði hafi Sjúkratryggingar verið stefnumótandi fyrir þróun og gerð heilbrigðiskerfisins.

Við í Samfylkingunni höfum bent á það margsinnis á undanförnum árum og höfum á fjórum þingum lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um Sjúkratryggingar Íslands. Frumvarpið hefur ekki fengið hljómgrunn en það er ákall um það sama og Ríkisendurskoðun talar um í skýrslu sinni, ákall um að það sé Alþingi sem taki stefnumótandi ákvarðanir um heilbrigðiskerfið.

Tilgangur frumvarps Samfylkingarinnar, sem bíður nú afgreiðslu í velferðarnefnd í fjórða sinn, er að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar hverju sinni til að ganga til samninga við einkaaðila um rekstur mikilvægra grunnstoða heilbrigðiskerfisins.

Að óbreyttu getur ráðherra tekið stefnumótandi ákvarðanir fyrir heilbrigðiskerfið án þess að þurfa að bera þær undir þingið eða látið Sjúkratryggingar Íslands í skjóli stefnuleysis um að marka stefnuna með þjónustusamningi sínum við heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa.

Of oft eru það seljendur heilbrigðisþjónustunnar sem skilgreina þarfirnar en ekki kaupandinn, ríkið sjálft, fyrir hönd almennings. Því verður að linna.

Að mati Samfylkingarinnar verður ekki við það unað að færa sífellt meira af grunnstoðum velferðarkerfisins í einkarekstur, eins og gert hefur verið í síauknum mæli á undanförnum árum og ágætlega er dregið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar enda þarf að okkar mati að virða vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar um að grunnþjónusta, líkt og heilbrigðisþjónusta, verði veitt af hinu opinbera.

Þegar þjónustusamningar eru gerðir þarf að tryggja að einkaaðilar fleyti ekki rjómann í samningunum við hið opinbera á þann veg að þeir fái greitt án þess að axla sambærilegar skyldur og opinberir aðilar þurfa að gera. Fræðimenn hafa margir bent á að einkarekstur í heilbrigðiskerfi auki frekar heildarkostnað en að draga úr honum, vegna hás stjórnunarkostnaðar, aukins eftirlitskostnaðar, ósveigjanleika í þjónustusamningum og ósamhæfðrar og ósamfelldrar þjónustu. Við jafnaðarmenn viljum einnig tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að þjónustunni og að greiðsluþátttöku sjúklinga verði haldið í lágmarki.

Með frumvarpi Samfylkingarinnar er einnig lögð til sú breyting á 40. gr. laga um sjúkratryggingar að í samningi um heilbrigðisþjónustu skuli kveðið sérstaklega á um ráðstöfun hagnaðar sem til verði í rekstri þess einkaaðila sem gerður er samningur við. Skal í samningnum m.a. kveðið á um að viðkomandi sé óheimilt að greiða arð til eigenda sinna.

Í ákvæðinu felst því skilyrðislaust bann við arðgreiðslum þegar gerðir eru samningar um heilbrigðisþjónustu og jafnframt verði heimilt að kveða á um hvernig hagnaðinum skuli að öðru leyti ráðstafað. Skattfé sem Alþingi hefur ákveðið með fjárlögum að nýta skuli í heilbrigðiskerfinu á að sönnu að nýta þar. Ef afgangur er í rekstri einkaaðila, sem fjármagnaður er með skattfé, ber að nýta þann afgang til fjárfestingar í rekstrinum og auka þannig gæði þjónustunnar, bæta aðbúnað sjúklinga og starfsskilyrði og menntun starfsfólks og stuðla með því að betri heilbrigðisþjónustu sem nýtir almannafé á ábyrgan hátt. Hagur sjúklinga ráði alltaf för.

Við leggjum einnig áherslu á að þegar ráðist verður í stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið verði sett skýr stefna um sérfræðiþjónustu við íbúa landsbyggðarinnar. Það er óviðunandi að nær einungis sú þjónusta sem einkaaðilar telji hagkvæma sé veitt utan höfuðborgarsvæðisins eins og nú er.

Herra forseti. Að lokum vil ég taka undir orð Samfylkingarmannsins (Forseti hringir.) Guðjóns Brjánssonar sem hét hæstv. ráðherra stuðningi Samfylkingarinnar við það vandasama verk sem fram undan er.