148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa yfirferð í dag á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

Þetta er nokkuð viðamikil skýrsla, en mig langar að taka út og leggja áherslu á nokkra punkta sem snúa að landsbyggðinni. Þar kemur fram að sérfræðiþjónusta sé ófullnægjandi. Það eitt og sér er sláandi staðreynd. Rammasamningurinn virðist virka betur fyrir sérfræðilækna sem eru á höfuðborgarsvæðinu en fyrir þá sem fara út á landsbyggðina. Í því sambandi velti ég því fyrir mér hvort smám saman sé að molna undan þjónustunni, þetta sé efsta lagið og síðan verði erfitt að fá heimilislækna til að starfa á landsbyggðinni, og við vitum að það er erfitt.

Ég velti því fyrir mér hvort fólk hreinlega upplifi sig ekki nógu öruggt.

Þá ætla ég að koma að öðrum punkti sem ég las þarna. Getur það verið rétt að fólk gefist hreinlega upp og flytji til höfuðborgarsvæðisins? Það má lesa það á milli línanna í skýrslunni. Þegar svo er komið fari það að nýta sér heilbrigðisþjónustuna mikið. Og því er í alvörunni velt upp í skýrslunni hvort fólk nýti þjónustuna óeðlilega mikið.

Það finnst mér dálítið merkilegt og mikilvægt atriði sem skoða mætti þar sem fram kemur að fólk á Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum nýti sér heilbrigðisþjónustuna hvað minnst. Mér finnst mjög alvarlegt að sú sé raunin.

Ég ætla að enda á þessum orðum. Þarna er greinilega verk að vinna. Skýrslan og sú gagnrýni sem þar birtist er góður grunnur að því hvernig má gera betur. Við verðum öll að leggjast á árarnar. Ég hvet heilbrigðisráðherra til dáða í því verki.