148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[17:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir afar góða umræðu og ég held að við séum mögulega að ryðja braut fyrir að við gerum meira af því að taka skýrslur Ríkisendurskoðunar til umræðu hér í þingsalnum. Ég held að það fari vel á því að loka þær ekki bara inni í þingnefndum heldur hafa þær líka til umræðu svona opið því að þarna liggur oft gríðarlega góð vinna að baki sem er full ástæða til að fleyta áfram inn í umræðu um aðhald þingsins og stefnumótun.

Ég vil líka þakka fyrir það að mér finnst þessi umræða gefa mjög góð fyrirheit um að við getum freistað þess að ná þverpólitískri nálgun á þetta verkefni. Ég vil sérstaklega þakka fyrir góð orð fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í þeim efnum og það faglega inntak sem hefur verið í þeirri umræðu. Það eru að sjálfsögðu ákveðin blæbrigði sem koma fram í áherslum einstakra fulltrúa en mér finnst samt eins og við séum með ákveðinn grunntónn sem ég held að við getum sammælst um, sem snýst kannski í fyrsta lagi um gæði, jöfnuð og ábyrga ráðstöfun opinbers fjár sem ég held að sé algerlega gegnumgangandi, og að við getum verið sammála um að mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er ekki bara ríkisútgjöldin í málaflokkinn á hverjum tíma heldur eru þeir mælikvarðar fleiri og flóknari. Þannig á það að vera.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson talaði um greiningar sem liggja að baki ákvörðunum og ég held að það sé afar mikilvægt að halda því til haga, en til þess þarf stefnumótun til langs tíma og líka, hvað á ég að segja, ákveðið pólitískt úthald. Við höfum búið við miklar sveiflur í sæti heilbrigðisráðherra í gegnum tíðina en til þess að halda festu í greiningum, þ.e. til að greiningar liggi til grundvallar ákvörðunum, þurfum við að hafa pólitískt úthald frammi fyrir aðkallandi skyndilausnum og að við hverfum frá því að stefnumörkunin endurspeglist bara í fjárlagaumræðu hvers tíma eða einhverjum skyndiverkefnum eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að hafi verið allt of algengt.

Hv. þm. Halldóra Mogensen talaði um greiðslukerfið og það gerði hv. þm. Óli Björn Kárason líka varðandi fjármögnunarkerfið hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem stendur til að útfæra inn í heilsugæsluna úti um land og ég held að það sé alveg örugglega til góðs. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir nefndi landsbyggðarsjónarmiðin og hversu mikill skortur er á jafnvægi á milli aðgengis að sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar.

Virðulegur forseti. Ég get ekki brugðist við öllum þeim athugasemdum sem hér hafa komið við umræðuna. Ég fullvissa þingheim um það að ég held þeim öllum kirfilega til haga í næstu skrefum í þeirri vinnu sem fram undan er og þakka enn og aftur þinginu og þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu.