148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. Mælt var fyrir frumvarpi sama efnis á 146. löggjafarþingi og þá gekk það til velferðarnefndar eftir 1. umr. en varð ekki afgreitt. Tildrög þess að velferðarráðuneytið, í samvinnu við Lyfjastofnun, réðst í gerð frumvarpsins eru ábendingar sem bárust frá lögreglu, tollyfirvöldum og lyfjanefnd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um að nauðsynlegt væri að setja heildarlöggjöf um tiltekin efni og lyf sem notuð eru í þeim tilgangi að bæta líkamlega frammistöðu einstaklinga, einkum í keppnisíþróttum. Þessi efni eru betur þekkt undir erlenda heitinu „doping“, með leyfi forseta. Talið er nauðsynlegt að sporna við ólöglegum innflutningi framangreindra efna og lyfja að ráði þeirra aðila sem hér eru nefndir og draga þannig úr framboði þeirra, enda er vel þekkt að notkun þeirra getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna. Meðal þekktra áhrifa eru t.d. sina- og vöðvaskaði, aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum, aukin tíðni krabbameins og lifrarskaði. Í frumvarpinu eru tiltekin þau efni og lyf sem heyra undir gildissvið laganna. Um er að ræða vefjaauðgandi stera, testósterón og afleiður þess, auk samsvarandi efna með karlhormónaáhrif, einnig vaxtarhormón auk náttúrulegra rauðkornavaka og efna sem hafa sambærileg áhrif með því að auka magn rauðra blóðkorna í blóði umfram eðlileg gildi fyrir aldur og kyn. Undir gildissvið laganna falla einnig þau efni sem auka myndun og losun vaxtarhormóna, testósteróns og afleiða þess eða sambærilegra efna með karlhormónaáhrif og náttúrulega rauðkornavaka.

Samkvæmt frumvarpinu verða innflutningur, útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla og varsla framangreindra efna og lyfja bönnuð á íslensku yfirráðasvæði. Lyfjastofnun mun þó geta veitt undanþágu frá slíku banni en slíkar undanþágur yrðu ávallt afturtækar. Frumvarpið tekur ekki til efna og lyfja sem Lyfjastofnun hefur veitt leyfi fyrir til ávísunar og notkunar í heilbrigðisþjónustu eða til vísindalegra rannsókna. Þá tekur frumvarpið ekki til lyfja sem hlotið hafa markaðsleyfi samkvæmt lyfjalögum eða lyfja sem Lyfjastofnun hefur heimilað sérstaklega að notuð séu samkvæmt lyfjalögum.

Drög að upphaflega frumvarpinu voru send í umsagnarferli og bárust umsagnir frá embætti landlæknis og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands en að umsagnarferli loknu var frumvarpið sent Lyfjastofnun til sérstakrar umsagnar og það unnið í samstarfi við stofnunina. Tekið var tillit til umsagnanna að mestu leyti. Við undirbúning þess frumvarps sem hér er lagt fram var tekið tillit til þeirra breytingartillagna sem fram komu í framhaldsnefndaráliti velferðarnefndar á vordögum síðastliðins árs. Í því áliti var rætt nokkuð um mikilvægi þess að varsla neysluskammta væri ekki refsiverð og um það hver mörk refsinæmis ættu að vera. Þá var talið eðlilegt að miða við tíu dagskammta. Ekki er fallist á þá breytingu að svo stöddu í þessu frumvarpi, einkum þar sem skilgreining á hugtakinu dagskammtur liggur ekki fyrir, enda getur hann verið breytilegur eftir tegund efnis og lyfs og líkamlegu atgervi einstaklingsins sem neytir efnanna eða lyfjanna. Þá er einnig lögð til sú breyting, frá því sem áður var, að tryggja fræðslu um áhrif neyslu þessara efna og lyfja og um aðrar forvarnir á þessu sviði. Mat á áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð hefur farið fram og verður ekki séð að lögfesting þess, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Gert var jafnréttismat á frumvarpinu til að kanna möguleg áhrif þess á jafnrétti kynjanna. Engin kyngreind gögn liggja fyrir um málaflokkinn og er því þörf á frekari greiningu til að hægt sé að skoða stöðu kynjanna á því sviði sem frumvarpið nær til og hvort það feli í sér slík áhrif.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi ég mér að leggja til að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til velferðarnefndar.