148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta snýst um það að eiginleg varsla eða ætluð varsla, sem er aðeins ef einstaklingurinn hefur einn umráð eða hyggst nota bannað efni eða bannaða aðferð á þeim stað þar sem efnið er bannað, ef aðferðin var til staðar, þýðir að ef einstaklingurinn hefur ekki einn umráð yfir hinu bannaða efni eða bönnuðu aðferð, eða þeim stað þar sem þetta efni eða aðferðin er til staðar, telst varsla aðeins ætluð ef einstaklingurinn vissi um tilvist hins bannaða efnis eða bönnuðu aðferðar og ætlaði sér að hafa umráð yfir því. Þetta er skilgreiningin á orðinu varsla í lögum ÍSÍ um lyfjamál; að því tilskildu samt sem áður að enga lyfjamisnotkun má byggja eingöngu á vörslu, það kemur fram í sömu löggjöf, ef á undan móttöku tilkynningar þess efnis að einstaklingurinn hafi brotið lyfjareglu hafi einstaklingurinn sýnt með atferli sínu að hann ætli sér ekki að hafa vörsluna og kannast ekki við vörslu og skýrir Lyfjaeftirlitinu sérstaklega frá því. Þrátt fyrir annað sem kemur fram í þessari skilgreiningu teljast kaup á bönnuðu efni eða bannaðri aðferð varsla þess aðila sem kaupir.

Samkvæmt þessari skilgreiningu teljast sterar sem finnast í bíl íþróttamanns brot nema íþróttamaðurinn sýni fram á að annar hafi notað bílinn. Í því tilfelli verður Lyfjaeftirlitið að sýna fram á að þótt íþróttamaðurinn hafi ekki alger umráð yfir bílnum vissi hann af sterunum og ætlaði sér að hafa umráð yfir þeim. Þessi skilgreining á vörslu er til og hefur verið notuð í umræddum lögum ÍSÍ um lyfjamál. Til þess er vísað í því frumvarpi sem hér er til umræðu en ég tel mikilvægt að nefndin fjalli um þennan þátt ef hv. þingmanni þykir þörf á þar sem hún er formaður nefndarinnar.