148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra var frumvarpið sem við ræðum nú áður lagt fram á 146. löggjafarþingi. Markmið frumvarpsins samkvæmt 1. gr. er að koma í veg fyrir notkun tiltekinna efna og lyfja í þeim tilgangi að bæta líkamlega frammistöðu svo meðferð og notkun þeirra skaði ekki heilsu fólks. Það er mjög gott markmið en ég verð að nefna að mér finnst furðuleg hugmynd að ætla að koma í veg fyrir að meðferð og notkun þessara efna skaði heilsu fólks með því að banna þau og gera það refsivert að hafa efnin í fórum sínum, eins og það eitt að banna efnin muni gera það að verkum að fólk hætti einfaldlega að nota þau. Að ætla það að bannstefna komi í veg fyrir heilsuskaða er gamaldags og úrelt nálgun á mjög flóknu viðfangsefni.

Markmið laganna er einnig að efla fræðslu og forvarnir ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu slíkra efna og lyfja. Þessu markmiði ber að fagna og þetta er mikil betrumbót frá frumvarpinu sem lagt var fram á þarsíðasta löggjafarþingi. Í fræðslu og forvörnum felst lykillinn að þeirri skaðaminnkun sem við sem nútímalöggjafi ættum að vinna að. Það kom einmitt fram í máli gesta við meðferð málsins í velferðarnefnd á 146. þingi að besta vopnið gegn notkun þessara efna væri að öllum líkindum forvarnir.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að frumvarpið muni einungis hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi, útflutningi, sölu, kaupum, skiptum, afhendingu, móttöku, framleiðslu, meðferð og vörslu framangreindra lyfja en ekki neytendur. Eins og ég ræddi við hæstv. ráðherra áðan í andsvörum þætti mér það frekar óheiðarleg nálgun ef það ætti að fara að refsa fólki sem er með einhvern skammt á sér og svo stendur í greinargerðinni að það eigi ekki að refsa þessum aðilum. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða vandlega og passa upp á að þetta feli ekki slíkt í sér.

Það má líta svo á að í neyslu lyfjanna felist meðferð þeirra og er því alveg ljóst að samkvæmt lagatextanum, eftir því sem ég skildi, er full heimild til að refsa neytendum með fangelsi allt að tveimur árum, en mögulega þarf ég að skoða það betur. Einnig kemur fram í greinargerðinni að við vinnu velferðarnefndar á 146. löggjafarþingi hafi nefndin rætt nokkuð mikilvægi þess að varsla neysluskammta yrði ekki gerð refsiverð og hver mörk refsinæmis ættu að vera. Þá taldi nefndin eðlilegt að miða slíkt mark við tíu dagskammta og lagði því til að varsla og meðferð efna og lyfja sem ákvæði frumvarpsins næðu til yrðu ekki refsiverð nema haldlagt magn efna væri umfram tíu dagskammta.

Þessi breyting er ekki lögð til í umræddu frumvarpi, fyrst og fremst af þeirri ástæðu að skilgreining á hugtakinu dagskammti liggur ekki fyrir. Ástæða þess er sú að dagskammtur geti verið afar breytilegur eftir tegund efnis eða lyfs sem og eftir líkamlegu ástandi þess einstaklings sem neytir umrædds efnis eða lyfs. Nú tók ég þátt í þessari vinnu velferðarnefndar á seinasta kjörtímabili og taldi ég að breytilegur dagskammtur ætti ekki að þurfa að hindra þetta mikilvæga skref í átt að skaðaminnkun, þ.e. að færa okkur frá þeirri stefnu að refsa neytendum yfir í að aðstoða þá. Við getum hæglega skilgreint neysluskammta út frá einhverju meðaltali, sem leið til þess að byrja, og athuga svo hvort það sé rétt skilgreining. Það ætti alltaf að vera hægt að breyta til og lagfæra ef það gengur ekki. Þetta væri skref í rétta átt frekar en sú afturför sem þetta frumvarp virðist fela í sér, því að lagafrumvarpið er alveg skýrt hvað svo sem kemur fram í greinargerð: Varsla og meðferð frammistöðubætandi efna og lyfja skal vera óheimil á íslensku forráðasvæði. Í 4. gr. frumvarpsins um viðurlög segir, með leyfi forseta.

„Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laga þessara og eftir atvikum reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra.“

Skal ofangreind háttsemi þannig vera refsiverð með fangelsi allt að tveimur árum. Dreifing þeirra lyfja sem hér er fjallað um er þegar óheimil samkvæmt lyfjalögum þar sem broti gegn lögunum skal refsa með sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, þannig að sú breyting sem hér er lögð til virðist hafa þau megináhrif að ekki yrði einungis refsivert að dreifa lyfjunum heldur yrði varsla og meðferð þeirra einnig refsiverð. Væri með því verið að færa refsiheimild fyrir neytendur í lög. Þannig eru þessi lyf og efni færð undir sama hatt og vímuefni þannig að heimilt verði að refsa neytendum þeirra á sama hátt og gert er samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni.

Forseti. Eins og kollegi minn, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, komst að orði í sérstökum umræðum um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta af fíkniefnum, með leyfi forseta:

„Fólk fer á sakaskrá fyrir neyslubrot. Það fær mjög háar sektir. Það sætir leitum og áreiti af hálfu yfirvalda.“

Það að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að fara í sömu vegferð með frammistöðubætandi efni og lyf og farið var með vímuefni á sínum tíma er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að búið er að hefja heildarendurskoðun á vímuefnalöggjöfinni og þar er lögð áhersla á að hverfa frá refsistefnu tengdri vímuefnaneyslu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að tíminn og reynslan hefur leitt í ljós að refsistefnan er skaðleg. Við verðum að læra af reynslunni.

Þó að eðli þessara efna og lyfja sé að nokkru ólíkt þeim efnum sem fjallað er um í lögum um ávana- og fíkniefni eiga þau margt sameiginlegt. Misnotkun frammistöðubætandi efna á borð við stera hefur verið viðvarandi áhyggjuefni. Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann hafa boðið upp á meðferð fyrir þá sem misnota stera en margir þeirra sem misnota þá verða fastir í notkun þeirra og hafa þannig myndað fíkn í efnin þrátt fyrir að þau falli ekki undir hefðbundna skilgreiningu vímuefna. Með því að taka upp þá stefnu að refsa skuli neytendum efnanna er því verið að færa þá í sama hóp og þá sem misnota vímuefni.

Það er nú orðið flestum ljóst að refsistefna í vímuefnum hér á landi hefur ekki skilað þeim árangri að dregið hafi úr neyslu þeirra. Það má því spyrja hvaða markmiði þetta lagafrumvarp eigi að ná og hvernig auknar refsingar í garð neytenda muni draga úr heilsutjóni sem efnin valda.

Eins og fram kom í nefndaráliti minni hluta við frumvarpið á 146. löggjafarþingi er gagnrýnivert að við vinnslu lagafrumvarpsins hafi ekki farið fram heildstæð greining á þörf á lagasetningu um þessi efni. Það er því óljóst hvaða áhrif frumvarpið mun hafa á málaflokkinn og hvaða áhætta felst í auknum refsingum. Þar má sem dæmi nefna áhættu á því að með hertri löggæslu muni framleiðsla og dreifing efnanna færast í meiri mæli til þeirra sem selja ólögleg vímuefni. Það gæti haft þau áhrif að auka átök þeirra sem framleiða, selja og neyta efnanna um leið og hagkerfi undirheima styrkist.

Mikil þörf er á að stefnumótun í málefnum sem varða neyslu ólöglegra efna sé heildstæð og til þess fallin að minnka skaða á heilsu einstaklinga og samfélagslegan skaða sem verður af neyslu þeirra. Það að setja í lög auknar refsiheimildir án þess að slík greining fari fram áður er óábyrgt og sýnir ófagleg vinnubrögð í málefnum sem varða heilsu og líf þeirra einstaklinga sem neyta ólöglegra efna.

Það stríð sem Ísland háði við vímuefni með von um fíkniefnalaust Ísland er löngu tapað og gera aðilar þess málaflokks sér nú grein fyrir því að forvarnir og fræðsla eru mun öflugra verkfæri en refsistefna og hert löggjöf. Það væri þess vegna tilvalið að nýta þetta tækifæri til að taka fyrstu skref okkar í raunverulegri skaðaminnkun með þessu frumvarpi. Þar sem það virðist vera vandamál með að skilgreina neysluskammta ættum við að taka af skarið og bara gera það, finna meðaltal og skilgreina neysluskammta og hverfa frá því að refsa neytendum. Við vitum að það virkar ekki, það dregur ekki úr neyslu heldur jaðarsetur fólk sem á við neysluvandamál að stríða og gengur í berhögg við þá þróun sem hefur orðið í þessum málaflokki á heimsvísu. Verum ekki eftirbátar þeirra þjóða sem setja mannréttindi fólks í fyrsta sæti frekar en úrelta bannstefnu sem engu skilar. Hugsum fram á við í mannúðlegum lausnum í stað þess að hjakka alltaf í sama farinu.