148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna þó að hún hafi ekki verið ítarleg og þakka fyrir stuðning flokkssystur minnar og formanns þingflokks Vinstri grænna við málið, en mér þykir hins vegar verra að hv. þm. Halldóra Mogensen er farin úr þingsal. Hér voru nokkrir þingmenn Pírata sem fóru mikinn undir liðnum störf þingsins fyrr í dag og töluðu um bætta umræðumenningu á Alþingi.

Ég upplifði það sitjandi hér á ráðherrabekknum eftir að hafa farið með framsögu um tiltölulega einfalt mál sem hefur notið töluverðs stuðnings á Alþingi, að orð eins og í fyrsta lagi að málið væri gamaldags og úrelt, sem er kannski bara afstaða út af fyrir sig og svo sem ekkert við það að athuga, en síðan voru notuð orð eins og óheiðarlegt. Loks voru notuð orð eins og að málið væri bæði óábyrgt og ófaglegt.

Ég verð, virðulegi forseti, að biðja um að hv. þingmenn, ég tala nú ekki um formenn fagnefnda og fastanefnda Alþingis, sem eiga væntanlega að taka málið til efnislegrar og faglegrar umfjöllunar, falli ekki í þann pytt að fjalla um mál af þessu tagi með gífuryrðum og stimplum út og suður. Ég vil ekki þurfa að hafa af því áhyggjur við 1. umr. þingmáls, sem borið er fram af mér sem heilbrigðisráðherra, að málið fái ekki efnislega umfjöllun í þingnefnd vegna þess að hv. formaður nefndarinnar hafi þá afstöðu til málsins að það sé undirbyggt af óheiðarleika og skorti á ábyrgð og fagmennsku.

Ég vonast til að málið fái efnislega umfjöllun í nefndinni og að það verði klárað með málefnalegum hætti.