148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, og lögum um loftferðir, nr. 60/1998.

Frumvarpið var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi og er nú endurflutt í breyttri mynd að teknu tilliti til fram kominna athugasemda sem komu fram hjá umhverfis- og samgöngunefnd á fyrri framlagningartímanum.

Frumvarpið inniheldur tillögur að breytingum á áðurnefndum tveimur lagabálkum, aðallega vegna endurtekinna innbrota á haftasvæði flugverndar og siglingaverndar, en einnig til að auka öryggi og skilvirkni við framkvæmd laganna gagnvart eftirlitsskyldum aðilum. Meginmarkmið frumvarpsins er að draga úr tilraunum til innbrota á haftasvæði flugverndar og siglingaverndar í loftför og skip. Lagt er til að kveðið verði skýrt á um það í lögunum að óheimilt sé að fara inn á slík svæði nema með tilskildum heimildum að viðlagðri refsingu. Það liggur ljóst fyrir að í því felst ógn við öryggi og sérstaklega hvað varðar flug og siglingavernd þegar óviðkomandi aðilar komast inn á haftasvæði. Það er því afar brýnt að tekið sé á slíkum brotum með skýrum hætti í löggjöf okkar. Þá er lagt til að refsingar fyrir innbrot í loftför og skip verði samræmdar að mestu enda er um sambærileg brot að ræða. Þó er lagt til að refsirammi vegna flugverndarbrotsins verði harðari þar sem telja má að um alvarlegra brot sé að ræða vegna eðlis flugstarfsemi og þeirrar ógnar sem steðjar að flugfarþegum, samanber verstu brotin á því sviði sem urðu 11. september 2001. Ljóst er að sé um enn alvarlegri brot að ræða kemur jafnframt til beitingar almennra hegningarlaga og getur því verið um þyngri refsingu að ræða á grundvelli þeirra laga. Þetta kemur ágætlega fram í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.

Eitt af markmiðum frumvarpsins er að lögfesta þá framkvæmd sem viðgengist hefur í samskiptum Samgöngustofu, áður Siglingastofnunar Íslands, og eftirlitsskyldra aðila sem falla undir lögin um siglingavernd. Stofnuninni eru af þessu tilefni færðar heimildir til að grípa til annarra úrræða en áður gagnvart eftirlitsskyldum aðilum, þ.e. stjórnvaldssekta og dagsekta í stað þess að einu úrræðin gagnvart slíkum aðilum séu sektir eða tveggja ára fangelsi. Slík úrræði eru talin markvissari fyrir stofnunina og gera henni betur kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum. Er þetta líka og meðal annars lagt til í kjölfar ábendinga frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur haft í frammi ákveðnar ábendingar og athugasemdir gagnvart úrræðaleysi stofnunarinnar til að framfylgja ákvæðum laga gagnvart eftirlitsskyldum aðilum.

Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um heimild Samgöngustofu til að leggja á einstakling stjórnvaldssekt hafi hann gerst sekur um aðgangsbrot á flugvelli og þar með brotið á lögboðnum skyldum sem á honum hvíla á grundvelli aðgangsheimildar. Samkvæmt gildandi lögum er einungis heimilt að færa slík mál í farveg refsimeðferðar þar sem viðurlögin eru sekt eða fangelsi allt að fimm árum. Breytingin sem nú er gerð felur í sér heimild Samgöngustofu til að fara vægari leið og sekta viðkomandi eða svipta hann aðgangsheimild hafi rekstraraðili flugvallar ekki þegar gripið til þeirrar ráðstöfunar.

Virðulegur forseti. Til að auka skýrleika í framkvæmd eru auk þess lagðar til breytingar á ákvæðum um bakgrunnsathuganir líkt og ég kom inn á í upphafi á grundvelli laga um loftferðir og laga um siglingavernd. Hvað varðar lög um loftferðir og lög um siglingavernd felur frumvarpið ekki í sér efnislegar breytingar nema að litlu leyti. Breytingarnar eru þannig fyrst og fremst til einföldunar vegna þeirrar framkvæmdar sem viðgengist hefur á undanförnum árum og reyndar til margra ára. Hvað varðar heimild til bakgrunnsathugana á grundvelli laga um loftferðir er lagt til að uppsetning ákvæðisins verði gerð skýrari auk þess sem bætt er við heimild lögreglu til öflunar gagna um einstakling sem gengst undir slíka bakgrunnsathugun. Ein af ástæðum þess að talið er mikilvægt að leggja til þessar breytingar á lögunum er úrskurður Persónuverndar um afgreiðslu mála vegna bakgrunnsathugana flugáhafna. Tilgangur breytinganna er ekki síst sá að koma til móts við þær ábendingar sem þar koma fram og hafa ítrekað komið fram, en jafnframt að teknu tilliti til alþjóðlegra krafna. Lögð er sérstök áhersla á, eins og í íslenskri löggjöf almennt, að málefnaleg sjónarmið séu ávallt lögð til grundvallar við ákvarðanir lögreglu um úrlausn einstakra mála og að meðalhófs sé gætt í hvívetna. Samhliða er lagt til að ákvæði laga um siglingavernd er lýtur að bakgrunnsathugun verði gert mun skýrara og afdráttarlausara en samkvæmt gildandi lögum. Höfð var hliðsjón af ákvæðum laga um loftferðir við vinnslu þess ákvæðis.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg hér með til að að þessari umræðu lokinni verði meðferð þess og umfjöllun vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og seinna til 2. umr.