148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í 5. gr. frumvarpsins sem hefur með refsiheimild vegna laumufarþega að gera; spyrja hvort það sé kannski umfram meðalhóf að ætla að þyngja þær refsingar sem gilda fyrir það að laumast um borð í skip, sérstaklega kannski gagnvart þessum viðkvæmasta hópi, sem eru flóttamenn að reyna að komast til annars áfangastaðar. Oftast er það nú vegna þess að íslensk yfirvöld hafa ekki verið neitt sérstaklega gestrisin, skulum við segja, við viðkomandi einstaklinga að þeir reyna að komast lengra. Við erum nýbúin að upplifa mál þar sem flóttamanni, sem reyndi að komast úr landi, var stungið á Hraunið, var barinn til óbóta og svo sendur úr landi. Ég spyr mig hvort þetta ákvæði sé merki um aukna hörku í framkomu okkar við flóttamenn, gagnvart þeim aðferðum sem þeir nota til að komast áleiðis í skjól frá stríðsátökum. Mig langar að velta því upp með ráðherra hvort ekki mætti nota mildari úrræði til að bregðast við þessum þætti vandans frekar en að þyngja refsiákvæðin sem liggja við þessari hegðun, t.d. með einhvers konar samvinnu við Rauða kross Íslands eða eitthvað í þá áttina; hvort þetta sé kannski helst til umfram meðalhóf þegar kemur að þessum hópi fólks.