148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langaði aðeins að koma inn á það að mögulega mætti skoða að einhvers konar neyð eða erfitt ástand viðkomandi komi til refsilækkunar. Kannski er nóg að hafa rúmar refsiheimildir, lágar upp í háar, en mér finnst alla vega að taka mætti þetta til skoðunar. Hvað það varðar að löndin í kringum okkur séu að gera þetta þá efast ég ekkert um orð ráðherra í þeim efnum. Ég get hins vegar líka sagt að löndin í kringum okkur eru heldur ekkert sérstaklega gestrisin við flóttamenn og það er ekki einfalt líf að vera slíkur; mega hvergi ferðast löglega á milli staða og þurfa að grípa til örþrifaráða. Ég efast um að dómstólar landsins myndu samþykkja eitthvað sem héti neyðarvörn í þessum efnum, einfaldlega vegna þess hvernig svona mál virka í praxís. En mér þætti alla vega vænt um að ráðherra tæki það til skoðunar hvort á einhvern hátt væri hægt að taka sérstaklega tillit til þessa hóps. Augljóslega eru til nokkrar tegundir laumufarþega þó að ég hafi kannski ekki heyrt af öðrum dæmum en einmitt þeim að um sé að ræða flóttamenn sem eru að reyna að komast frá Íslandi vegna bágra aðstæðna sinna hér á landi eða vegna þess að þeir telji sig geta fundið öruggara skjól annars staðar.

Ég velti því upp í lokin á mínu seinna andsvari að ráðherra athugi í sínum ranni hvort ekki megi koma á einhvern hátt til móts við þennan hóp.