148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

Matvælastofnun.

331. mál
[18:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 442, máli nr. 331. Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um Matvælastofnun. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í dag eru í gildi lög um Matvælastofnun, nr. 80/2005. Þessi lög nefndust upphaflega lög um Landbúnaðarstofnun og með þeim lögum var Landbúnaðarstofnun sett á fót. Tók stofnunin við réttindum og skyldum ýmissa stofnana aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra og plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands.

Með lögum nr. 167/2007, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, voru matvælamál flutt til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og heiti laga um Landbúnaðarstofnun var breytt í lög um Matvælastofnun. Á þeim rúmum tíu árum sem Matvælastofnun hefur starfað hafa síðan fleiri verkefni færst til stofnunarinnar, m.a. eftirlit með kjötvinnslum, mjólkurbúum, eggjaframleiðslu og sjávarafurðum í kjölfar gildistöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins. Auk þess hafa verkefni tengd fiskeldi og velferð dýra einnig verið færð til stofnunarinnar sem og stjórnsýsluverkefni frá Bændasamtökum Íslands.

Tilefni þessa frumvarps eru ábendingar sem fram hafa komið í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Matvælastofnun frá árinu 2013 og einnig í skýrslu um Matvælastofnun frá árinu 2017 sem var unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í þessum skýrslum var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvatt til þess að setja ný lög um Matvælastofnun, þ.e. rammalöggjöf þar sem m.a. yrði kveðið skýrt á um hlutverk stofnunarinnar, verkefni, stjórnun og önnur lög sem um starfsemina gilda. Einnig var fjallað um þá gagnrýni sem stofnunin hefur mátt sæta fyrir það að hafa ekki nægilegt samráð við þá aðila sem starfið varðar mest.

Í þessu frumvarpi er mælt fyrir um stjórnarfarslega stöðu Matvælastofnunar gagnvart ráðherra og að hún fari með stjórnsýslu matvæla samkvæmt lögunum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Þá segir að Matvælastofnun skuli með starfsemi sinni stuðla að neytendavernd, heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.

Síðan er fjallað um hlutverk Matvælastofnunar. Í gildandi lögum um Matvælastofnun er þessu hlutverki ekki lýst heldur vísað til þeirra laga sem stofnunin hefur eftirlit með og annast stjórnsýslu samkvæmt. Í frumvarpi þessu er lögð til skýrari lýsing á þessu hlutverki, að stofnunin fari með stjórnsýslu og eftirlit í samræmi við lög um Matvælastofnun og önnur lög, m.a. varðandi matvæli, dýraheilbrigði, dýravelferð, jarðrækt, fóður, sóttvarnir og viðbragðsáætlanir, fiskeldi, kjötmat, inn- og útflutningseftirlit og stuðningsgreiðslur í landbúnaði.

Önnur hlutverk Matvælastofnunar verði þá í fyrsta lagi að veita ráðherra ráðgjöf um þá málaflokka sem falla undir starfssvið stofnunarinnar, þar með talið aðstoð við stefnumótun, undirbúning laga og stjórnvaldsfyrirmæla og alþjóðlegt samstarf. Í öðru lagi að vinna að samræmingu og skilvirkni opinbers eftirlits á starfssviði sínu. Í þriðja lagi að vinna að aðgengi íslenskra afurða að erlendum mörkuðum og loks í fjórða lagi að veita hagsmunaaðilum og almenningi fræðslu um málefni á starfssviði stofnunarinnar.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um skipulag Matvælastofnunar. Lagt er til að ráðherra skipi forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri ákveði síðan sviðaskiptingu og ráði sviðsstjóra með þeirri undantekningu að ráðherra skipi yfirdýralækni sem verði sviðsstjóri þess sviðs sem fer með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og málefni dýravelferðar. Þetta er óbreytt frá gildandi lögum og talið rétt að viðhalda með hliðsjón af því hlutverki sem yfirdýralækni er falið í lögum um innflutning dýra. Hins vegar er það ákvæði fellt niður að yfirdýralæknir skuli vera staðgengill forstjóra.

Þá er kveðið á um starf héraðsdýralækna og umdæmisstofa í lögum um Matvælastofnun en í dag er kveðið á um þetta í 11. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Í ljósi þess að héraðsdýralæknar eru nú starfsmenn Matvælastofnunar þykir rétt að starf þeirra og umdæmisstofanna, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þær kallist, falli undir lög um stofnunina.

Þá er kveðið á um að Matvælastofnun skuli starfrækja landamærastöðvar en hún rekur í dag sjö slíkar stöðvar. Nánar er kveðið á um landamærastöðvar í lögum nr. 93/1995, um matvæli. Allur innflutningur búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins fer um þessar stöðvar og fer þar fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna afurðanna og ákvörðunarstað.

Loks er lagt til að nýtt ákvæði um að Matvælastofnun skuli árlega gera áætlun og birta skýrslu um starfsemi sína og setja sér stefnu til lengri tíma í samræmi við lög um opinber fjármál.

Í frumvarpi þessu er að auki lagt til það nýmæli að við stofnunina skuli starfa svokallað samstarfsráð. Þetta ráð á að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta milli Matvælastofnunar og þeirra sem hennar starfi tengjast. Þar er m.a. átt við samtök neytenda, ýmis samtök framleiðenda og viðskiptaaðila sem og samtök á sviði dýravelferðar. Lagt er til í frumvarpinu að ráðherra ákveði tilnefningaraðila og fjölda fulltrúa.

Að lokum er lagt til að heimilt verði að semja við þar til hæfa aðila um afmörkuð verkefni við eftirlit. Í ákveðnum tilvikum hafi ráðherra heimild til að ákveða að gera skuli slíka samninga en í öðrum tilvikum verði það í höndum Matvælastofnunar að ákveða slíkt. Slíkar heimildir eru nú þegar í ákveðnum lögum sem Matvælastofnun starfar eftir, en hér er lagt til að þessi regla gildi um öll lög sem stofnunin annast framkvæmd á.

Með nýjum lögum um Matvælastofnun, verði þetta frumvarp að lögum, er markmiðið að skýra hlutverk stofnunarinnar betur en gert er í núverandi löggjöf. Þá er markmiðið að koma á virkara samráði milli stofnunarinnar og hagsmunaaðila og gera ríkinu kleift að framselja verkefni þegar það er hagkvæmt.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir umræddu frumvarpi, en þar er ítarlega farið yfir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.