148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

Matvælastofnun.

331. mál
[18:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég bað um orðið til að eiga smáorðastað við hæstv. ráðherra um samstarfsráðið sem hann kom aðeins inn á í lok máls síns. Mig langar engu að síður að ræða þessi mál örlítið við hann til að auðvelda okkur í hv. atvinnuveganefnd vinnuna.

Í greinargerðinni kemur fram, eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega inn á hér í sínu máli sínu, að heyrst hafa gagnrýnisraddir varðandi það að ekki væri nægilegt samráð eins og kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Af aðilum í búrekstri töldu 32% samskiptin mjög eða frekar góð en 86% aðila í öðrum matvælaiðnaði.“

Það virðist vera eins og minni ánægja sé í búrekstrinum en í öðrum matvælaiðnaði. Hæstv. ráðherra fór hér yfir hvaða aðilar kæmu mögulega til greina í umrætt samstarfsráð, sem er svo sem ekki sagt mikið um í sjálfu frumvarpinu. Þar segir að ráðherra skipi samstarfsráð, ákveði fjölda fulltrúa og hverjir tilnefni — auk Matvælastofnunar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort horft verði sérstaklega til þessarar staðreyndar varðandi búreksturinn. Samráð er örugglega gott varðandi allan rekstur. Það er alltaf gott. Verður sérstaklega hugað að þeirri staðreynd við skipun þessa samstarfsráðs? Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í því? Hvaða fulltrúar þurfa sérstaklega að eiga sæti í samstarfsráði vegna þeirrar staðreyndar?