148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

Matvælastofnun.

331. mál
[18:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það liggur ekki fyrir með hvaða hætti óskað verður eftir tilnefningum eða hvernig ætlað er að standa að því að kalla saman samstarfsráðið. Það er hins vegar augljóst í mínum huga að sú gagnrýni sem komið hefur á þessa stofnun lýtur annars vegar að því hvernig hún þjónustar þá aðila sem innan geirans starfa og hins vegar hafa legið fyrir ákveðnar gagnrýnisraddir sem ráðuneytið þarf að taka á, eins og t.d. varðandi fjármálaumsýslu og annað því um líkt sem gengið hefur verið til verka með.

Varðandi samstarfsráðið og hvernig í það verður skipað hljótum við eðli málsins samkvæmt að skipa með þeim hætti að ná sem mestri snertingu við þau fyrirtæki og þá starfsemi sem gagnrýnt hefur stofnunina með málefnalegum hætti og fullum rökum. Hvernig það mun dreifast skal ég ekki segja, en sú könnun sem hv. þingmaður vísar til gefur ákveðnar vísbendingar um hvar við verðum að ná meiri trúnaði á milli stofnunarinnar og þeirra sem þjónustunnar njóta eða sæta eftirliti af hennar hálfu.

Augljóst má vera, án þess að ég þekki greiningu á því, að mest ber á gagnrýni þar sem starfsstöðvarnar eru flestar, eins og t.d. í því tilviki sem hv. þingmaður nefndi. Það kann að vera af þeirri einföldu ástæðu að stofnunin hafi ekki komist yfir að þjóna þeim nægilega vel, eðli málsins samkvæmt. Þá verðum við einhvern veginn að taka á því. Það verður best gert í sem nánustu samstarfi við þá sem hörðustu gagnrýnina veita. Það hyggst ég reyna. En eins og ég sagði í upphafi liggur ekki fyrir með hvaða hætti við göngum til þessa verks.