148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

matvæli og dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

330. mál
[18:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 441, máli nr. 330. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og fór sú vinna fram samhliða vinnu við frumvarp til laga um Matvælastofnun, sem ég hef nýlokið við að mæla fyrir. Tilefni þessa frumvarps er því hið sama og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni áðan, það eru ábendingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Matvælastofnun sem skilað var til Alþingis, sú skýrsla er frá árinu 2013, og sömuleiðis í skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið um Matvælastofnun frá árinu 2017, frá því í fyrra.

Þegar farið var að skoða þætti í starfsemi Matvælastofnunar varð ljóst að leggja þyrfti til breytingar á ákvæðum annarra laga samhliða nýju frumvarpi til laga um Matvælastofnun. Talin er þörf á því að skýra heimildir og skyldur Matvælastofnunar til upplýsingagjafar um þá þætti sem stofnunin hefur eftirlit með en á undanförnum árum hefur verið kallað eftir því að veittar séu meiri upplýsingar um mál sem varða hag neytenda. Þá var skoðað með hvaða hætti þessum upplýsingum er miðlað til neytenda. Helsta ástæða þess að ákveðið er að setja ákvæði þessa efnis í lög um matvæli frekar en í lög um Matvælastofnun er einkum sú að jafnframt þarf að kveða á um upplýsingagjöf af hálfu heilbrigðisnefnda sveitarfélaga en eftirlit með lögum um matvæli er í höndum beggja aðila, þ.e. heilbrigðisnefnda og Matvælastofnunar. Raunar eru aðilarnir ellefu þar sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru tíu á landsvísu og hver um sig er sjálfstætt stjórnvald. Þetta vekur mann einnig til umhugsunar um það hversu sambærilegt þetta eftirlit getur verið á milli hinna ólíku heilbrigðisumdæma. Það er ekki síður mikilvægt og jafnvel mikilvægara að neytendur fái upplýsingar sem varða eftirlit heilbrigðisnefnda sveitarfélaga þar sem eftirlitsþegar þeirra standa neytendunum næst. Hafa heilbrigðisnefndirnar til að mynda eftirlit með verslunum, stóreldhúsum og veitingastöðum. Jafnframt er tilefni til breytinga á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr til samræmis við tillögur í frumvarpi til laga um Matvælastofnun.

Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til nýtt ákvæði sem heimilar eftirlitsaðilum að draga úr tíðni eftirlits hjá matvælafyrirtæki sem hefur vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna. Miðar þessi breyting að því að veita matvælafyrirtækjum sveigjanleika í því að geta fengið úttektir faggiltra aðila metnar þegar eftirlitsaðili ákvarðar þörfina á eftirliti í tilteknum matvælafyrirtækjum. Í öðru lagi er lagt til nýtt ákvæði um að eftirlitsaðilar, þ.e. Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, skuli flokka fyrirtæki eftir frammistöðu þeirra samkvæmt niðurstöðum úr eftirliti og að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um slíka flokkun. Með frammistöðuflokkun er átt við að horft er til frammistöðu fyrirtækja í opinberu eftirliti og þau flokkuð samkvæmt því. Þessi flokkun hefur áhrif á mat á eftirlitsþörf fyrirtækisins en fyrirtæki hafa þannig beinan ávinning af því að standa sig vel þar sem þau þurfa þá minna eftirlit og greiða þar af leiðandi lægri eftirlitsgjöld. Lagt er til að kveðið verði á um að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga taki upp sams konar flokkun á matvælafyrirtækjum og birti upplýsingar um matvælaeftirlit með sama hætti og Matvælastofnun. Þannig notist allir opinberir eftirlitsaðilar við sama áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi í eftirliti sínu. Það er misjafnt hve langt heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru komnar í því að taka upp þetta kerfi en grundvöllur þess að hægt verði að birta upplýsingar um frammistöðu fyrirtækja er að allir eftirlitsaðilar notfæri sér samræmt kerfi í eftirliti. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem taki gildi 1. janúar 2021 um að birta skuli opinberlega upplýsingar varðandi flokkun á frammistöðu fyrirtækja. Þá verði einnig heimilt að ákveða birtingu á eftirlitsskýrslum sem flokkunin byggist á. Ekki er talið skynsamlegt að skylda opinbera eftirlitsaðila til að birta þessar upplýsingar strax frá og með 1. janúar 2019 þegar önnur ákvæði frumvarpsins eiga að taka gildi.

Eins og áður segir eru heilbrigðiseftirlitsnefndir sveitarfélaga komnar mislangt við að hefja áhættu- og frammistöðuflokkun. Til að birting upplýsinga um frammistöðuflokkun fyrirtækja sé marktæk þurfa eftirlitsferðir að vera á bak við flokkun fyrirtækja. Gefa verður stjórnvöldum tíma til að aðlagast og samræma eftirlit hinu nýja fyrirkomulagi. Er talið rétt að gefa fyrirtækjunum færi á að gera úrbætur í ljósi nýrra reglna um birtingu upplýsinga um frammistöðuflokkun sem og að gefa nýjum matvælafyrirtækjum færi á að vinna sig upp með góðri frammistöðu í eftirliti áður en upplýsingar um frammistöðu eru gerðar opinberar. Lagt er til að ráðherra verði falið að kveða á um það með reglugerð með hvaða hætti frammistöðuflokkunin er birt. Hann geti ákveðið að birta flokkunina í heild, t.d. með því sem kallað er broskallakerfi, sem þekkist á Norðurlöndunum, en einnig að birta lista yfir fyrirtæki sem flokkast í tiltekinn flokk eða flokka, sem ég held að flestum hugnist betur en hin aðferðin, sem m.a. er nýtt í Danmörku en þykja Danir þó með glaðlyndari þjóðum. Þá verði einnig kveðið á um í reglugerð hvort birta skuli eftirlitsskýrslur. Í dag er ekki skylda að birta þessar upplýsingar og byggist upplýsingagjöf á upplýsingalögum, nr. 140/2012. Loks eru, eins og áður segir, lagðar til breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Í frumvarpi til laga um Matvælastofnun er lagt til að kveðið verði á um héraðsdýralækna og umdæmisskrifstofur Matvælastofnunar í lögum um Matvælastofnun. Í dag er kveðið á um héraðsdýralækna í lögum nr. 66 frá árinu 1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Þar sem héraðsdýralæknar eru nú starfsmenn Matvælastofnunar þykir rétt að starf þeirra og umdæmisstofa falli undir lög um Matvælastofnun.

Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir því. Þar er ítarlega fjallað um innihald frumvarpsins. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.