148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

stofnefnahagsreikningar.

65. mál
[19:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir framsögu fyrir hönd hv. fjárlaganefndar í því máli sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um gerð stofnefnahagsreikninga fyrir ríkissjóð í heild og einstakra ríkisaðila. Hv. þingmaður fór vel yfir málið og umfjöllun nefndarinnar. Þar sem þetta er hluti af heillöngu ferli og tengist þeim ramma sem lög um opinber fjármál gefa okkur er mikilvægt skref að fara yfir í það að færa eignir og skuldir og þar af leiðandi er byrjað á að setja upp stofnefnahag, ætla ég að nálgast málið út frá þeim ramma sem lögin gefa.

Það kemur skýrt fram í ályktuninni og nefndaráliti að unnið er út frá áætlun um innleiðingu þessara breytinga á reikningsskilum, sem hv. þingmaður og framsögumaður fór vel yfir. Að lokinni innleiðingu breytinganna skal reikningshaldsleg meðferð eigna og skulda ríkissjóðs og ríkisaðila í A-hluta uppfylla kröfur alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila og laga um ársreikninga.

Líkt og um frumvarp til lokafjárlaga, sem verið hefur og er til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd, má segja að hér sé um tímamót að ræða. Í tilviki frumvarps til lokafjárlaga er þetta í hinsta sinn sem við tökum fyrir frumvarp á því formi. Á sama tíma er hér um tímamótaályktun að ræða þar sem við munum eignfæra og skuldfæra, sem ekki hefur verið gert áður, og setja upp stofnefnahagsreikning til að útfæra það fyrir einstaka aðila í A-hluta og ríkissjóð í heild, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór vel yfir þegar hún kom inn á reikningsskilastaðla í samræmi við breyttar reikningsskilaaðferðir. Kveðið er á um þetta í 52. gr. laga um opinber fjármál. Vísa ég þá í lögin sem búa að baki, en þar segir, með leyfi forseta:

„Reikningsskil fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild skulu gerð á grundvelli alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila sem miða við rekstrargrunn. Reikningsskilaráð getur frestað tímabundið að taka upp hluta af stöðlunum, enda liggi til þess málefnalegar ástæður. Í ríkisreikningi skal gera grein fyrir hvaða atriðum staðalsins er ekki fylgt, ástæðum þess og áhrifum á afkomu og fjárhag.

Reikningsskil fyrir einstaka ríkisaðila í A-hluta skulu uppfylla kröfur laga um ársreikninga, nr. 3/2006.“

Það sama gildir um aðila í B- og C-hluta.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um opinber fjármál, sem tóku gildi í janúar 2016, segir m.a. um áðurnefnda 52. gr., með leyfi forseta:

„Við framkvæmd ákvæðisins um eignfærslu rekstrarfjármuna er gert ráð fyrir að hún takmarkist við svokallaða samneyslufjárfestingu, þ.e. fjárfestingu sem beinlínis tengist hefðbundnum rekstri ríkisins. Í þessu felst að aðrar efnislegar eignir í ríkiseigu, svo sem náttúruauðlindir, þjóðgarðar, hálendið, listaverk og fornmunir, verði undanskilin eignfærslu.

Hins vegar mun öll fjárfesting ríkisins eftir gildistöku laganna færast um efnahagsreikning ríkissjóðs án tillits til þess hvort um samneyslufjárfestingu eða aðrar efnislegar eignir er að ræða í samræmi við reikningsskilareglur. […] Upptaka alþjóðlegs reikningsskilastaðals hefur mikil áhrif á færslumeðferð og niðurstöður úr reikningshaldi A-hluta ríkissjóðs í heild. Mikilvæg breyting felst í því að efnahagsreikningurinn mun auk peningalegra eigna innihalda efnislega fjármuni og fæst því mun raunhæfari mynd af hreinni eignastöðu og sjálfbærni ríkissjóðs.

Þá munu afskriftir fjármuna auk gengis- og verðbótafærslna af lánum nú færast um rekstrarreikning, en á móti er horfið frá gjaldfærslu á stofnkostnaði í rekstrarreikningi. Samkvæmt staðlinum skulu rauntölur rekstrar bornar saman við fjárveitingar og áætlanir. Ávinningurinn af því að taka upp alþjóðlegan opinberan reikningsskilastaðal fyrir ríkissjóð í heild felst einkum í því að þar með falla reikningsskilin að viðurkenndum skilgreiningum sem uppfylla alþjóðakröfur sem almenningur og fagaðilar geta treyst.“

Ég tel mikilvægt að rifja upp þessi atriði úr greinargerð til staðfestingar og skilnings á málinu. Með þingsályktuninni felum við stjórnvöldum að setja upp stofnefnahagsreikninga svo taka megi upp reikningsskil og alþjóðlega reikningsskilastaðla á svokölluðum rekstrargrunni hjá ríkisstofnunum og ríkissjóði í heild. Helsta breytingin felst í því að fram til þessa hefur tíðkast að færa aðeins upp peningalegar eignir í efnahagsreikningi ríkisstofnana og ríkissjóðs.

Allar fjárfestingar hingað til, hverju nafni sem þær nefnast, eru gjaldfærðar að fullu á kaup- og byggingarári. Nú verða fjárfestingar hins vegar eignfærðar og afskrifaðar á líftíma sínum. Þannig að við sjáum væntanlega gjörbreytingu á efnahagsreikningi stofnana, eins og t.d. hjá Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni, svo að ég nefni einhver dæmi og mögulega dæmi sem vert væri að stilla upp til skoðunar fyrir nefndina þegar við förum að fylgja eftir framkvæmdinni, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á í framsögu sinni.

Ísland verður með þessum breytingum í fararbroddi við innleiðingu á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Að vísu nýtir meiri hluti OECD-ríkjanna sér rekstrargrunnsviðmið en sárafá ríki hafa gengið svo langt að innleiða alþjóðlegu reikningsskilastaðlana eins og Ísland stefnir nú að. Flest ríki sýna fjárlög á svokölluðum greiðslugrunni, þ.e. eingöngu greiðsluhreyfingar ársins.

Hérlendis er ætlunin að fjárlög og ríkisreikningur verði á sambærilegum grunni. Mikil vinna hefur verið innt af hendi. Eins og ég kom inn á hefur þetta verið heillangt ferli og mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að koma þessu að fullu til framkvæmda.

Til þess að innleiðingin taki gangi vel fyrir sig í framhaldinu þarf að huga að mörgum þáttum, eins og eignaskráningu. Gera má ráð fyrir að Vegagerðin annist áfram utanumhald um samgöngumannvirki, sem eru risastór þáttur í þessu öllu saman. Eignaumsýslustofnun verður falið að sjá alfarið um eignaumsýslu og annast rekstur og útleigu eigna á grundvelli leigusamninga við aðrar ríkisstofnanir. Einn helsti ávinningurinn af breytingunni felst í því að fjárbinding verður nú sýnileg í reikningum stofnana. Miðað við reynsluna erlendis má gera ráð fyrir að eignir ríkisins nýtist smám saman betur en verið hefur og hvati myndist til þess að fækka fermetrum í skrifstofuhúsnæði ríkisins.

Útgjöld ríkisaðila gætu þannig orðið betur samanburðarhæf þeirra á milli og við starfsemi einkamarkaðarins. Málið hefur verið til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. Verkefnið, þingsályktunartillagan sjálf sem við ræðum hér, er umfangsmikið, eins og fram kemur í greinargerð. Þar er um veigamikla og í raun grundvallarbreytingu að ræða. Þess vegna er mikilvægt að glöggva sig á þeim breytingum er varða uppgjör, breyttar reikningsskilareglur og alþjóðlega reikningsskilastaðla og þeim áhrifum sem verða á eigna- og skuldahlið, nýjum liðum, breyttum matsaðferðum og sundurliðun. Við væntum þess að sjá mikla breytingu á ríkisreikningi og mögulega þeim lið sem fellur undir útskýringar í þeim reikningi.

Það mun kalla á sérfræðikunnáttu í innleiðingarferlinu sem fram undan er, á þessu sviði, sviði matsaðferða, reikningsskilareglna og í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Það er nauðsynlegt fyrir nefndina að fylgja þessari áætlun eftir og kalla eftir atvikum fulltrúa á fundi nefndarinnar um framkvæmd verkefnisins.

Hér fór hv. framsögumaður og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir yfir þær ábendingar sem nefndin lét fylgja í lok nefndarálits. Að öðru leyti er lagt til í nefndaráliti að samþykkja tillöguna óbreytta, en mikilvægt er að skýr ábyrgð á verkefninu fylgi og að haft verði í huga, þar sem þekkingin er ekki mjög víðtæk og á þröngu sviði, að leita eftir ráðgjöf og þjálfa starfsfólk.

Í öllu þessu ferli, frá setningu laga um opinber fjármál hefur verið í gildi eða til viðmiðunar innleiðingaráætlun. Það er mikilvægt að skoða hana uppfærða, ekki síst það sem snýr að efni þeirrar ályktunar sem við fjöllum um hér.

Þá vil ég benda á ágætisumsögn Landspítalans við málið og þeirra sem komu á fund nefndarinnar um mikilvægi ákvarðana er varða orlofsskuldbindingar. Það á við um fjöldamargar stofnanir, og svo mismunandi aðferðir við mat á fasteignum.

Þá verður auðvitað ekki undan því vikist að leysa upp bundið fé ríkisaðila. Að auki væntir nefndin tillagna að breytingum á fjárheimildum sem fyrst. Mikilvægt er að breytingar komi til samræmis við breytingar á reikningshaldi eins hratt og mögulega er auðið, sem við mundum kalla breytingar á hagrænni skiptingu. Það hefur í raun og veru ekki áhrif á afkomu, en það kemur skýrt fram í nefndarálitinu og hv. framsögumaður kom vel inn á það sem er á blaðsíðu 2, að leita þarf samþykkis Alþingis fyrir þeim breytingum þegar þær koma.

Þá þarf að taka ákvarðanir varðandi fyrirkomulag fasteigna. Það getur átt við að stofna til fasteignafélaga og sumar fasteignir eru svokölluð menningarverðmæti. Sú fasteign sem við stöndum í hér myndi væntanlega flokkast þar undir. Svo er mismunandi verðmat á eignum úti á landsbyggðinni og svo framvegis, þannig að það eru fjölmörg aukaatriði varðandi eignir og verðmat sem taka þarf tillit til og ákveða hvernig fara skuli með.

Að lokum ætla ég að nefna að löggjafinn og alþingismenn þurfa auðvitað alla daga að hafa skoðanir á málum og taka ákvarðanir. Þar af leiðandi fer betur á að skilningur fylgi vegna þess að hér er um mikla breytingu að ræða frá hefðbundnu ferli frá fjárreiðulögum yfir í lög um opinber fjármál og svo breyttar reikningsskilaaðferðir, eins og við erum að fjalla um hér. Þess vegna bendir nefndin á, og hyggst fylgja því eftir, að hyggilegt væri og gott fyrir þingmenn að fá sérstaka upplýsingafundi þegar þessar breytingar ganga eftir.

Ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, en ítreka að hér er um grundvallarbreytingu á reikningsskilum að ræða. Ég vísa til ábendinga nefndarinnar, en eins og fram kemur í nefndaráliti er lagt til að samþykkja þingsályktunartillöguna óbreytta.