148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

samræmd próf í íslensku.

[10:32]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um árabil hefur Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, gagnrýnt samræmd próf í íslensku á beinskeyttan og vel rökstuddan hátt fyrir að mæla illa raunverulega þekkingu á íslensku máli, fyrir að leiða nemendur í gildrur, auk þess sem Eiríkur hefur bent á ýmsar hreinar villur í þessum prófum.

Við gagnrýni Eiríks hefur ekki verið brugðist af hálfu Menntamálastofnunar en í gær brá hins vegar svo við að nemendur grunnskóla þreyttu prófið rafrænt og öðrum var ekki veittur aðgangur að því. Raunar var aðgangnum þannig háttað í gær að einungis um 1.700 af rúmlega 4.000 nemendum náðu að ljúka prófinu með herkjum.

Íslenskunám nemenda í grunnskóla fer mikið í að búa sig undir þessi próf með tilheyrandi ævintýralegum leiðindum og jafnvel áralangri andúð á íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum. Ýmsir skólamenn hafa látið í ljós efasemdir um gildi þessara prófa yfirleitt og í gær skrifar Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi, til að mynda á Facebook-síðu sína, með leyfi forseta, að þessi próf séu „leifar af skólastarfi fyrri tíma, eins konar forngripir sem þvælast fyrir nútímaskólastarfi. Þau eiga heima á Þjóðminjasafninu í læstum skáp“.

Hafsteinn spyr líka og ég veit að fleiri skólastjórnendur og nemendur spyrja: Hver er tilgangur samræmdu prófanna í dag og hvað eiga þau að mæla? Eru þau liður í að bæta skólastarf? Hafa þau bætt skólastarf?

Áhugavert væri að heyra hugmyndir ráðherrans um þetta.