148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

samræmd próf í íslensku.

[10:36]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör ráðherra. Hvað telst ekki gott mál?

Fargið ekki öllu fiðurfénu strax.

Við skulum fergja heyið því brátt rignir.

Fergið ætlaði mig lifandi að drepa.

Það var þungu fargi af mér létt.

Þetta er úr sýnidæmi um samræmt könnunarpróf í 10. bekk á vef Menntamálastofnunar. Ég ætla ekki að hrella hæstv. ráðherra með því að krefja hana um svör við þeirri spurningu hvað af þessu teljist ekki gott mál því að hún stendur væntanlega jafn ráðþrota gagnvart henni og ég. En ég spyr aftur hvort slík nálgun á móðurmálskennslu eigi ekki að heyra sögunni til, eigi ekki heima í skáp í Þjóðminjasafninu, hvort ekki sé ástæða til að létta þessu fargi af ungu fólki.