148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

kjararáð.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að tilvísun til launavísitölunnar í þessu tilviki hafi í raun verið í dæmaskyni. Hafa verður í huga að yfir tíma breytast laun í samfélaginu, ýmist vegna sérstakra ákvarðana, launaskriðs eða kjarasamninga. Ef við horfum á þá sem taka laun eftir taxta sem ríkið ákveður er launavísitalan til vitnis um að eitthvað er að gerast í samfélaginu á meðan viðkomandi taxti er fastur, þ.e. þá fellur allur tíminn niður dauður þar til næsta ákvörðun er tekin. Viðkomandi fylgir þá ekki almennri launaþróun í landinu. Það verður hv. þingmaður að taka með í reikninginn þegar hann gagnrýnir að launum sé síðan með einni afmarkaðri ákvörðun breytt til samræmis við einhvern mælikvarða, eins og launavísitölu.