148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

falskar fréttir og þjóðaröryggi.

[10:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Falskar fréttir er beinast að sérstökum ríkjum eða hagsmunum ríkja hafa aukist mjög á undanförnum árum. Fréttir þessar eru af margvíslegum toga en eiga það gjarnan sameiginlegt að tilgangur þeirra er að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni, innlenda sem erlenda, þess ríkis er þær beinast að. Þær geta varðað viðskiptahagsmuni, kosningar og ímynd ríkis út á við, svo fátt eitt sé nefnt.

Á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld markvisst unnið gegn áhrifum slíkra frétta með því að setja á laggirnar sérstök teymi sem hafa það hlutverk að finna slíkar fréttir, einkum á samskiptamiðlunum, og bregðast við þeim, styðja við bakið á frjálsum fjölmiðlum og rannsóknarblaðamönnum í því augnamiði að uppræta slíkar fréttir.

Bandaríkjaþing gaf út í byrjun árs vandaða skýrslu sem er kölluð Árás Rússa á lýðræðið í Rússlandi og Evrópu. Þar kemur fram að á Norðurlöndum stunda Rússar að setja í loftið falskar fréttir á netið með ýmsum hætti. Tekið er dæmi af finnsku kosningunum frá 2015. Stofnaðir voru nokkrir Twitter-aðgangar sem virtust vera tengdir finnska þinginu. Í fyrstu virtist vera um ósköp venjulega Twitter-reikninga að ræða þar sem umræðan var á eðlilegum nótum um finnsk stjórnmál og fjöldi þeirra sem fylgdi því sem þarna var birt jókst stöðugt. Síðan gerist það skömmu fyrir kosningar að þessir Twitter-reikningar taka U-beygju og birta pólitískar fréttir sem enginn fótur var fyrir og var greinilega ætlað að hafa áhrif á kosningarnar. Við rannsókn málsins kom í ljós að Rússar stóðu á bak við þessa Twitter-reikninga. Fleiri dæmi eru nefnd í skýrslu Bandaríkjaþings frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Að berjast gegn fölskum fréttum er þjóðaröryggismál og mikilvægt mál í hagsmunagæslu ríkja á alþjóðavettvangi. Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er fylgst með fölskum fréttum og þær skrásettar er varða Ísland og íslenska hagsmuni? (Forseti hringir.) Er brugðist við fölskum fréttum er varða Ísland og íslenska hagsmuni?