148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

falskar fréttir og þjóðaröryggi.

[10:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara ágætlega yfir málið. Mér sýnist á svari hans að við höfum ekki sérstakt teymi í þeim efnum eins og Norðurlöndin hafa. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það vandlega hvort ekki sé rétt að setja á laggirnar einhvers konar teymi í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóra og greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Það er mjög mikilvægt að halda utan um þessa hluti og skrásetja þá. Við lifum í breyttum heimi og blikur eru á lofti í Evrópu eins og við þekkjum hvað varðar Rússa sérstaklega og yfirgang þeirra í Evrópu. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að skrásetja þetta og auk þess að reyna að komast að upprunalöndum þessara frétta, en Rússar hafa verið mjög umsvifamiklir í þessu efni. Skýrsla Bandaríkjaþings, sem kom út í janúar, er mjög vönduð og ég hvet ráðherra til að kynna sér hana eða að starfsmenn ráðuneytisins kynni sér hana og skoði þetta mál betur.