148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður í þessu samhengi að gera greinarmun á því þegar lög hafa ákveðinn gildistíma og hinu þegar menn setja í lagatexta áform um að viðkomandi stofnun muni gegna þessu hlutverki í afmarkaðan tíma. Á þessu er alger reginmunur og formlega séð eru lög fallin úr gildi ef gildistími þeirra er liðinn. En það á ekki við hér. Við erum ekki að tala um gildisákvæði laganna um Bankasýsluna heldur þau áform sem menn höfðu í huga í upphafi um það hversu lengi stofnunin þyrfti að vera til. Á þessu er mikill munur. Það er hins vegar hægt að segja um Bankasýsluna að lögin geyma ákveðna sögu um það. Við héldum á þessum tíma að við yrðum að fimm árum liðnum búin að losa um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum, en hið öfuga hefur gerst. Við höfum stóraukið eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og salan á þessum 13% hlut í (Forseti hringir.) Arion banka er fyrsta salan á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum sem á sér stað frá því að Bankasýslan var sett á laggirnar. Það er alls ekki þannig að við höfum náð þeim markmiðum sem að var stefnt.