148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

innleiðingarhalli EES-mála.

[10:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að fá, með leyfi forseta, að vitna í stjórnarsáttmálann þar sem segir:

„Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði.“

Mig langar líka til að fá að vitna í síðustu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef miklar tafir verða á innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf er afleiðing sú að ekki er hægt að ganga að því sem vísu að sömu reglur gildi á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Slíkt grefur undan meginmarkmiði EES-samningsins.“

Mér sýnist að innleiðingarhalli Íslands sé að aukast þrátt fyrir skýr markmið sem hafa verið sett á undanförnum árum, að ná innleiðingarhallanum niður í 1% eða minna. Hann hefur við síðustu mælingar verið um 2%. Mér sýnist einboðið að hann muni aukast við næstu skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Mig langar því að spyrja ráðherrann: Hvaða áform eru uppi um að bæta hér úr? Greinilegt er að það þarf á átaki að halda. Sömuleiðis erum við að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum á gerðum og þær streyma inn til þingsins án þess að fyrir liggi frumvörp til staðfestingar á þeim gerðum. Spurningin er þessi: Hefur hæstv. utanríkisráðherra engar áhyggjur af þeirri réttaróvissu sem kann að skapast þegar við höfum aflétt stjórnskipulegum fyrirvara?

Alþingi hefur samþykkt þessar gerðir og þær hafa í raun og veru tekið gildi. Engin lög hafa verið sett til að fylgja þeim eftir.

Hvaða áform hefur hæstv. utanríkisráðherra um að hér verði bætt úr?