148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

innleiðingarhalli EES-mála.

[11:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þegar ég kom inn í ráðuneytið var eitt af því fyrsta sem ég gerði að setja af stað vinnu við að skoða þessi mál sérstaklega. Það er væntanleg skýrsla um þessi mál, sem er núna í yfirlestri, ekki bara til þess að taka á því sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. stöðu málsins og hvar helstu flöskuhálsarnir eru, en það skiptir máli að það liggi fyrir og að allir séu meðvitaðir um það, en ekki síður, sem skiptir kannski meira máli, að skoða hvaða leiðir við þurfum að fara til að leysa úr þessu.

Ég get þó upplýst hv. þingmann að miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið er innleiðingarhallinn ekki að aukast. Hins vegar höfum við ekki náð þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Stutta sagan virðist vera sú að áður en við fórum í aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið, fyrir þann tíma var innleiðingarhallinn ekki vandi hjá okkur. En það virðist vera að menn hafi breytt því fyrirkomulagi sem við vorum með þá þegar farið var í aðlögunarviðræðurnar. Í kjölfarið jókst þessi innleiðingarhalli eins og hv. þingmaður vísaði til. Fyrir þann tíma stóðum við Íslendingar okkur stundum best, ef þannig má að orði komast, þegar kom að innleiðingu. Síðan þegar aðlögunarviðræðunum var hætt var fyrirkomulagið ekki sett á sama stað og það var áður.

Ég hef þess vegna unnið að því að koma með úrbætur sem miða að því að koma málum í fyrra horf og reyna þá að vinna skipulega að því að vinna úr þeim málum sem hv. þingmaður vísaði til. Ég vonast til að ég geti dreift þessari skýrslu í það minnsta í næstu viku.