148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

innleiðingarhalli EES-mála.

[11:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Það er gott að menn eru að semja skýrslu um úrbætur og vonandi verður það góð skýrsla. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að áhugi hæstv. utanríkisráðherra og samherja ráðherra í ríkisstjórninni sé einhvern veginn ekki mjög fókuseraður á EES-samstarfið. Áhuginn virðist liggja annars staðar og þarf ekki að hafa mörg orð um áhuga hæstv. utanríkisráðherra á Brexit og aðdáun hans á þeim sem þar fara fremstir í flokki. Flokkur hæstv. ráðherra hefur skipað sér í sveit í með stjórnmálaflokkum í Evrópu innan vébanda ESCR sem eru andsnúnir Evrópusamvinnunni.

En mig langar að síðustu að nota síðustu sekúndurnar til að spyrja út í ummæli hæstv. fjármálaráðherra við umræður hér fyrir nokkrum dögum þar sem hann talaði um að Evrópusambandið valtaði yfir samstarfsaðila sína innan EES-samningsins EFTA-megin. Að EFTA-ríkin, samherjar okkar, væru eftirlátssöm og að það væri orðið afar sérstöku vandamáli.

Tekur hann undir það með hæstv. ráðherra að samstarfsríki okkar innan EFTA séu duglaus og dáðlaus?