148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

innleiðingarhalli EES-mála.

[11:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór nokkuð rangt með í máli sínu. Í fyrsta lagi vísaði hann í þessi alþjóðasamtök, Evrópusamtök sem Sjálfstæðisflokkurinn er aðili að, en flestir flokkar þar eru mjög fylgjandi ESB og beittu sér reyndar fyrir því að Bretar yrðu áfram í ESB í Brexit-kosningunni. Sömuleiðis kannaðist ég ekki við þau ummæli hæstv. fjármálaráðherra að EFTA-ríkin væru dáðlaus og duglaus. Ég vona að hv. þingmaður verði aðeins málefnalegri í umræðunni, sem skiptir máli. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það sem ég hélt að allir vissu, að mikilvægt er að halda þessari tveggja stoða lausn sem við höfum rætt hér hvað eftir annað. Ef hv. þingmenn eru ekki meðvitaðir um það og ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra í því þá finnst mér það vera nokkuð sérstakt. Hv. þingmaður hefur einhverjar áhyggjur af því að ég hafi áhuga annars staðar. Ég hef áhuga á því að gæta hagsmuna Íslendinga. Eitt er það að sinna hagsmunagæslu okkar hvað varðar EES-samninginn en ekki er þar með sagt að fleiri hagsmunir séu ekki undir. Hv. þingmaður veit mætavel að fleiri hagsmunir eru til staðar en bara EES-samningurinn. Hv. þingmaður veit til dæmis að heimurinn er að breytast. Hann veit að inn eru að koma mjög stórir markaðir, stórar millistéttir úti um allan heim. (Forseti hringir.) Það að ríkisstjórnin sé meðvituð um að gæta hagsmuna Íslands útilokar ekki neitt annað, allra síst hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins.