148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

útgáfa vestnorrænnar söngbókar.

119. mál
[11:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og þeir sem komið hafa nálægt starfi Vestnorræna ráðsins vita þá er sá óvenjulegi háttur hafður á í vestnorrænu samstarfi að þær ályktanir sem samþykktar eru á fundum Vestnorræna ráðsins koma til beinnar afgreiðslu á þjóðþingum aðildarríkjanna. Það skýrir tilurð þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir.

Til að gera langt mál stutt, því að um þetta efni mætti hafa langt mál, vildi ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tek undir þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti utanríkismálanefndar, að áhugavert gæti verið að útgáfa vestnorrænnar söngbókar væri könnuð. En hins vegar má hafa verulegar efasemdir um að það eigi að vera á höndum ríkisstjórna aðildarríkjanna.

Ég styð þess vegna þá tillögu en árétta að í þeim stuðningi felst ekki stuðningur við að hér verði stofnuð einhvers konar ríkisútgáfa söngbóka.