148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

húsnæðissamvinnufélög.

346. mál
[11:23]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 146. löggjafarþingi 2016–2017 en varð þó ekki að lögum. Orðalagsbreytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu síðan þá í því skyni að auka skýrleika. Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið auk fulltrúa húsnæðissamvinnufélaganna Búseta, Búfestar og Búmanna.

Með lögum nr. 29/2016, um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög, voru margvíslegar breytingar gerðar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Markmið breytinganna var meðal annars að stuðla að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga og auðvelda félögunum að starfa hér á landi. Þessu frumvarpi er ætlað að stuðla enn frekar að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga með því að tryggja að félögin eigi þess kost að velja þá fjármögnun sem þau telja hagstæðasta og henta best á hverjum tíma. Slíkt val fer þá fram annars vegar með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi og hins vegar með tilliti til þeirrar áhættu sem fjármögnuninni fylgir. Með fyrrgreindum breytingalögum voru meðal annars gerðar breytingar á ákvæði d-liðar 1. mgr. 5. gr. laganna sem mæla fyrir um með hvaða hætti húsnæðissamvinnufélögum skuli aflað fjár. Í eldri lögum var orðalag ákvæðisins með þeim hætti að félögin höfðu heimild til þess að afla fjár með lánum úr Íbúðalánasjóði samkvæmt lögum um húsnæðismál og með öðrum lánum á almennum markaði. Með breytingartillögunum var ákvæðinu breytt á þá leið að félögin hefðu heimild til fjármögnunar með lánum sem tekin væru hjá fjármálafyrirtækjum og öðrum lánastofnunum, styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum. Síðarnefnda ákvæðið þykir binda hendur húsnæðissamvinnufélaga með víðtækum hætti þegar kemur að lántökum. Þar sem ákvæðið er bundið við lán hjá fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum stendur það í vegi fyrir því að félögin geti fjármagnað sig með öðrum hætti sem kann að henta betur og vera hagstæðara fyrir félögin.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu er lagt til að orðalagi d-liðar 1. mgr. 5. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög verði breytt þannig að félögunum verði heimilt að taka lán á almennum markaði, m.a. hjá fjármálafyrirtækjum, sem og Íbúðalánasjóði, ásamt því að taka við styrkjum og framlögum frá samstarfsaðilum. Einnig er lagt til að þeim verði heimilt að fjármagna sig með útgáfu skuldabréfa en rétt er að geta þess að útgáfa skuldabréfa þarf að fylgja þeim lagareglum sem gilda um verðbréfaviðskipti hverju sinni. Félögin geta kosið þá fjármögnun sem er hagstæðust og hentar best hverju sinni með hagsmuni félagsmanna í fyrirrúmi auk þess að taka tillit til þeirrar áhættu sem fylgir fjármögnuninni. Með þessu er stuðlað enn frekar að sjálfbærum rekstri slíkra félaga.

Líkt og áður sagði var við samningu frumvarpsins haft samráð við fulltrúa húsnæðissamvinnufélaganna Búseta, Búfestar og Búmanna. Auk þess var frumvarpið unnið í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Á meðal þessara aðila var einhugur um þá leið sem farin er í frumvarpinu að því er varðar fjármögnunarmöguleika félaganna. Verði frumvarpið að lögum munu húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að velja þá fjármögnun sem að þeirra mat er hagstæðust og hentar best hverju sinni. Enn fremur aukast líkurnar á því að rekstur húsnæðissamvinnufélaga verði sjálfbær sem eykur húsnæðisöryggi búseturéttarhafa. Hvorki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á stjórnsýslu ríkisins né að það leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð.

Virðulegur forseti. Eins og fram kom áðan þá var þetta mál afgreitt úr velferðarnefnd á 146. löggjafarþingi en ekki náðist að klára það fyrir þinglok. Að því er ég best veit voru allir flokkar á nefndaráliti á þeim tíma. Það er kannski ekki meiru við þetta að bæta. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.