148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

ársreikningar.

340. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, um viðveru endurskoðenda á aðalfundum, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar.

Eins og bent er á í greinargerð var þetta frumvarp áður lagt fram á 146. löggjafarþingi. Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði þá um tvö frumvörp, annars vegar um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og hins vegar um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, þar sem lagt var til að endurskoðendum lífeyrissjóða og hlutafélaga yrði skylt að svara fyrirspurnum sjóðfélaga og/eða hluthafa um reikningsskil og fjárhagsleg málefni sjóðanna eða félaganna á ársfundum eða hluthafafundum. Þessi frumvörp voru flutt að frumkvæði hv. fyrrverandi þm. Vilhjálms Bjarnasonar.

Með tilliti til ábendinga Félags löggiltra endurskoðenda varðandi frumvörpin leggur nefndin með þessu frumvarpi til að gerð verði breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, í stað breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um hlutafélög. Í 3. málslið 1. mgr. 107. gr. laga um ársreikninga segir nú að í félögum sem hafa hlutabréf sín eða skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skuli endurskoðendur sitja aðalfundi. Nefndin leggur til að skyldan verði víkkuð út og látin ná til allra lögaðila sem skylt er að kjósa sér endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki, samanber 96. og 98. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laga um ársreikninga skulu endurskoðendur svara fyrirspurnum á aðalfundi um ársreikning þann sem til umfjöllunar er og þeir hafa áritað eða undirritað. Með breytingunni er gert tryggara að endurskoðandi verði viðstaddur aðalfund og geti því svarað fyrirspurnum um ársreikninginn.

Ég vil bæta því við að með þessu er verið að tryggja aðgengi hluthafa og sjóðfélaga í lífeyrissjóðum að endurskoðendum og auka þannig gegnsæi hvað varðar það sem endurskoðun félaga eða sjóða felur í sér. Frumvarpið breytir þó í engu því að eftir sem áður bera stjórnendur félaganna og sjóðanna ábyrgð á þeim fjárhagslegu upplýsingum sem fram koma í ársreikningi sem og framsetningu hans. Endurskoðandi ber síðan ábyrgð á þeirri endurskoðun sem hann hefur framkvæmt og því áliti sem hann hefur gefið ársreikningnum á grundvelli hennar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.