148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:09]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef þetta væri nú bara einu sinni á ári en þetta er oft á ári, þetta eru gjaldskrárhækkanir opinberra fyrirtækja eða þetta eru hækkanir sem sveitarfélögin eru að framkvæma oft á ári.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann einnar spurningar: Óttast hann ekki að það eina sem gerist ef við tökum fasteignir út úr vísitölunni, húsnæðisverð, muni það leiða til nafnvaxtahækkunar verðtryggðra vaxta, þ.e. að í staðinn fyrir að þeir séu 4% fara þeir upp í 4,5% o.s.frv.? Lánastofnanir munu alltaf taka tillit til þeirrar áhættu sem fylgir og ég óttast að við séum pínulítið að blekkja sjálf okkur, í staðinn fyrir að ráðast að sjúkdómnum sjálfum sem er auðvitað óstöðugleiki í efnahagsmálum — við höfum að vísu notið þess undanfarin ár að vera með stöðugt verðlag en ég er sammála hv. þingmanni að peningastefna Seðlabankans þarf endurskoðunar við (Forseti hringir.) og ég bendi líka á að þau innflæðishöft sem eru í gildi halda vaxtastigi og eru de facto form á skattheimtu á fyrirtæki og heimili.