148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer hér mikinn yfir því að núverandi ríkisstjórn viti lítið í sinn haus. Ég held að ég sjái mig knúna til þess að rifja upp fyrir hv. þingmanni hans eigin gjörðir þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra í stöðugleikasamningunum og raunar forsögu þeirra. Það er oft þannig hjá hv. þingmanni að hann kýs að láta söguna alltaf byrji á árinu 0, alveg sama hvað hefur gerst á undan. Það er auðvitað ekki þannig og það veit hv. þingmaður vel. Ég þekki hann nógu vel til þess að ég veit að hann veit þetta allt nákvæmlega.

Jú, það er rétt að það var gert hluthafasamkomulag 2009. Það hefur margítrekað komið fram og öllum hér inni verið það ljóst enda var það borið til samþykktar Alþingis 2010 og staðfest við samþykkt Alþingis 2012 í tíð þáverandi ríkisstjórnar. Ávöxtunin af þessu hluthafasamkomulagi er raunar ansi hreint góð og ef við berum saman við það sem íslenska ríkið setti inn við endurreisn Arion banka miðað við það sem önnur evrópsk ríki settu inn í fjármálakerfið á sama tíma, á þessum krepputíma, er þetta góð ávöxtun, tæplega 11% ávöxtun ríkisins á ári frá árinu 2009.

Ég myndi því segja að sú ríkisstjórn sem þá sat hafi hagað sér skynsamlega og gert rétt í því að verja hagsmuni almennings af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um hagsmuni almennings. Ríkið heldur á skuldabréfi útgerðarinnar í Kaupþingi með veði í hlutabréfum Arion banka og þar til skuldabréfið er fullgreitt fer söluandvirði hlutans sem Kaupþing átti í bankanum í janúar 2016 til niðurgreiðslu skuldabréfsins. Hið sama gildir um arðgreiðslur til Kaupþings frá Arion banka sem eiga sér stað í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutum Kaupþings í bankanum.

Hefði verið hægt að fara einhverja aðra leið? Ja, ég spyr: Af hverju fór þá hv. þingmaður ekki aðra leið þegar hann hafði tækifæri til í ríkisstjórn? Honum hefði verið í lófa lagið að fara sömu leið með Arion banka og farin var með Íslandsbanka sem var tekinn yfir af ríkinu en ákveðið að fara aðra leið með Arion banka. Það var ólík aðferðafræði og í raun og veru eru það stöðugleikasamningarnir sem þrýsta á um að farið sé í sölu á Arion banka því að það eru ákveðin tímamörk á uppgreiðslu skuldabréfsins sem miðast við janúar 2019.

Það var hins vegar ákvörðun ríkisstjórnar hv. þingmanns að ríkið myndi eignast Íslandsbanka, halda eignarhlut sínum í Arion banka en á móti fengið ríkið forkaupsrétt á hlutum í Arion banka og afkomuskiptasamning, við skulum ekki gleyma því, sem tryggir ríkissjóði vaxandi hlutdeild í söluandvirði bankans eftir því sem söluverð er hærra.

Ég átta mig ekki á því hvort hv. þingmaður var að vísa í mig þegar hann sagði að enginn forkaupsréttur væri til staðar. Það er ekki svo. Það hef ég aldrei sagt. Forkaupsréttur er skrifaðar inn í stöðugleikasamkomulagið. Ég fór hins vegar yfir það í ræðu og orðaskiptum við hv. þingmann á dögunum að þessi forkaupsréttur hefur ekki virkjast hingað til því að hann miðast við gengið 0,8. Yfir það var farið, ekki bara af þáverandi ríkisstjórn þegar seldir voru hlutir í bankanum, heldur líka af hv. efnahags- og viðskiptanefnd og niðurstaðan varð sú að forkaupsrétturinn hefði ekki virkjast.

Hins vegar er búið að þvæla hér heilmikið fram og til baka og því haldið fram að forkaupsrétturinn hafi virkjast en ekki verið nýttur. Í ákvæðum stöðugleikasamkomulagsins er síðan kveðið á um að fari bankinn í skráningu í hlutafjárútboði sé forkaupsrétturinn aðlagaður sama stöðugleikasamkomulagi og hv. þingmaður stóð fyrir á sínum tíma.

Ég vil bara segja hér að ég tel að hv. þingmaður hafi staðið sig vel í þessum málum þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. Ég tel raunar að fyrri ríkisstjórn hafi gert það líka. Ég tel að allt frá 2009 hafi setið ríkisstjórnir sem hafa haft hagsmuni almennings að leiðarljósi, að samningarnir, hvort sem er hluthafasamkomulagið frá árinu 2009 eða stöðugleikasamningarnir frá árunum 2015 og 2016, hafi reynst ríkissjóði hagfelldir. Ég hefði haldið að hv. þingmaður horfði allglaður á þá staðreynd að stöðugleikasamkomulagið — og nota bene, við gerð þess er beinlínis sett viðbótarákvæði við hluthafasamkomulagið frá 2009 þannig að þá var mönnum sömuleiðis í lófa lagið að breyta því samkomulagi ef vilji hefði staðið til þess. Þá er gerður þessi afkomuskiptasamningur sem mér finnst mikilvægt að halda til haga, þ.e. annars vegar fara arðgreiðslur inn á skuldabréf ríkisins og hins vegar skiptast söluverðmæti eftir því hvert endanlegt söluverð bankans og eigna hans verður.

Hér hefur líka mikið verið rætt um arðgreiðslur út úr bankanum og að hægt sé að tæma hann með arðgreiðslum út úr honum en afkomuskiptasamningurinn sem ríkisstjórn hv. þingmanns gerði tryggir að ríkið fái sinn hlut í þeim arðgreiðslum líka. Ég hefði haldið að hér hefði verið vel haldið á málum og allt lítur út fyrir að ríkið geti fengið allt að 150 milljarða út úr því framlagi sem ríkið setti á sínum tíma, árið 2009, í gegnum hluthafasamkomulagið. Ég hefði haldið að við hv. þingmaður ættum að samfagna hér góðum árangri ríkisstjórna í gegnum tíðina í því að tryggja hag almennings (Forseti hringir.) í endurreisn fjármálakerfisins.