148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Söluferli Arion banka er óskýrt og framtíðarsýn bankastarfseminnar óljós. Ferlið ýtir undir tortryggni og vantraust. Ég nefni í fyrsta lagi það að fyrrverandi aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra hafi verið beggja vegna borðsins, fyrst við hönnun skilyrða og síðan við að aðstoða kröfuhafana við að koma sem best frá þeim skilyrðum. Það er öllum ljóst að þeir sem unnu að stöðugleikaskilyrðunum í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar höfðu aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða hag íslenska ríkisins. Það er því ekkert annað en hneyksli að í ráðningarsamningi hafi hæstv. fjármálaráðherra ekki gert þá kröfu að þeir sem unnu fyrir hann að þessu verki færu ekki að vinna fyrir kröfuhafana á meðan verið væri að uppfylla skilyrðin.

Í öðru lagi var sú ákvörðun að fara aðra leið með Arion banka en hina bankana tekin að kröfu Sjálfstæðismanna, að sögn fyrrum samstarfsmanna formanns Sjálfstæðisflokksins. Sporin hræða þegar kemur að fjármálakerfinu og aðkomu Sjálfstæðismanna að sölu banka.

Í þriðja lagi eru kröfuhafarnir í þeirri stöðu að þeir geta ráðið verðinu á hlutum í bankanum og stillt því þannig að ríkið eigi ekki forkaupsrétt. Passað er upp á verð og dagsetningar kaupsamninga og þetta kemur í veg fyrir það að forkaupsréttur ríkisins virkist. Og svo virðist að annan mögulegan ávinning ríkisins hafi kröfuhafarnir einnig í hendi sér. Fyrir þetta var ekki girt í samningunum um stöðugleikaskilyrðin.

Allt ferlið þarf að vera gegnsætt og opið en það er það ekki. Við vitum ekki hverjir eiga vogunarsjóðina eða hverjir munu eiga og stýra þessum stóra kerfislega mikilvæga banka á Íslandi.